150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að andmæla því að 15 milljarðar séu lítið á þessum tímapunkti. Ef við skoðum það bara og setjum í samhengi við að heildarframlögin til samgöngumála á þessu ári er þetta gríðarleg innspýting. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að sveitarfélögin komi með og fari líka í að hraða framkvæmdum. Við vonumst til þess og væntum þess að sveitarfélögin geri það. Við erum með væntingar um að opinberu félögin gerir það líka.

15 milljarðar eru það sem við töldum raunhæft að væri hægt að hrinda strax í framkvæmd. Það er að koma apríl og þrír mánuðir liðnir af árinu. Við erum að horfa til næstu níu mánaða og samkvæmt því stöndum við frammi fyrir því að koma gríðarlega miklum fjármunum strax út. Ég veit ekki hvort það er raunhæft að fjórfalda samkeppnissjóðina sem hv. þingmaður vísar til. Við þurfum að hafa eitthvert eðlilegt úthlutunarhlutfall úr sjóðunum en það eru vissulega álitamál hvar maður á að draga mörkin. Við höfum verið að gera það á undanförnum árum, alveg eins og við höfum stóreflt rannsóknir og þróun. Ætli nýsköpun sé ekki eitt af meginþemum stjórnarsáttmálans þannig að ég get tekið undir að það er mikilvægur (Forseti hringir.) málaflokkur.