150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:16]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég og hæstv. ráðherra þurfum ekkert að rífast um það hvað sé raunhæft og hvað ekki. Í rauninni ætti ég að snúa andsvarinu upp á ráðherrann og spyrja: Ef verktakar, atvinnulífið og sveitarfélög telja raunhæft að ráðast í frekari fjárfestingar núna, er þá ekki hæstv. ráðherra tilbúinn að mæta því? Við getum alveg rifist um það í þessum sal, hvorugur einhver sérfræðingur í vegagerð eða samkeppnissjóðum, en ef þessir aðilar telja að þeir geti nýtt peningana núna er þá ekki hæstv. ráðherra til í að mæta því? Er það ekki ágætismillileið? Eins og ég segi er ég enginn sérfræðingur í því hvað kallar á að tvöfalda vegi eða brýr en ef aðilarnir sem starfa á því sviði segja okkur í meðförum nefndarinnar að þeir gætu þegið meiri peninga núna, erum við þá ekki bara sammála um að gera það? Er það ekki ágætisbyrjun?

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að við þurfum að vera raunsæ. En varðandi sjóðina er fullkomlega augljóst að það er mjög raunhæft og raunsætt að setja meira í þá. Fyrir þetta áfall náði Tækniþróunarsjóður ekki að sinna þeim verkefnum sem til hans bárust þótt þau uppfylltu skilyrði um hæstu einkunn. Þetta eru ekki stóru tölurnar en Tækniþróunarsjóður er ótrúlega mikilvægt fyrirbæri, Rannsóknasjóður, Innviðasjóður o.s.frv. Þetta eru allt sjóðir sem eru aðeins brotabrot af ríkisfjármálunum en gætu gagnast svo vel á þessum tímapunkti.

Það þarf auðvitað að fjármagna hallann með einum eða öðrum hætti en sem betur fer, og hæstv. ráðherra hefur ítrekað dregið það fram í dagsljósið, skuldar ríkissjóður ekkert sérstaklega mikið, skuldastaðan er u.þ.b. 30% af landsframleiðslu sem er öfundsvert og ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir að ná þeirri stöðu. Svigrúmið til skuldsetningar til að mæta ríkishalla er því svo sannarlega fyrir hendi og þá skulum við endilega nýta okkur það á þeim krítíska tímapunkti sem við erum núna á í hagsögunni.