150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir ræðuna og ekki síst fyrir mjög gott samstarf í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum hv. þingmönnum sem sitja í nefndinni fyrir gott, ærlegt og heiðarlegt samtal í gegnum fjarfundabúnað alla síðustu viku.

Mér finnst samt ástæða til að nefna tvö atriði sem hv. þingmaður kom inn á, annars vegar barnabótaaukann sem kom hér aðeins til umræðu. Ég vil árétta, því að sumir kynnu að misskilja það af ræðu hv. þingmanns áðan, að frumvarpið sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd fékk í hendurnar gekk út á barnabótaauka sem miðaðist við tekjur ársins 2019. Við höfum ekkert annað viðmið. Það er samt satt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að það var umræða um hvort ástæða væri til að hafa óskertan barnabótaauka og þar af leiðandi þyrfti ekki að horfa til tekna ársins 2019. Niðurstaðan varð, eins og öllum ætti að vera ljóst, að við breyttum frumvarpinu töluvert og þá er spurning mín til hv. þingmanns hvort hún telji þá útfærslu sem nú liggur fyrir ekki betri en þá sem var upphaflega í frumvarpinu. Þar var ákveðin skekkja þar sem átti að horfa bara á launaupphæð annars foreldris en ekki allrar fjölskyldunnar. Með þessari breytingu er það þó gert og þeir sem eru komnir yfir 15–16 milljónir fá 30.000 kr. með hverju barni en aðrir fá 42.000. Þetta er fyrsta spurning mín til hv. þingmanns.

Ég sé að tíminn líður hratt, ég ætlaði líka að koma inn á Allir vinna og verð að gera það í seinna andsvari.