150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Margt í þessum aðgerðapakka stjórnvalda er alveg ágætt og auðvitað ber að þakka það góða samstarf sem náðist í efnahags- og viðskiptanefnd um að betrumbæta eins og kostur var. Hins vegar verður að segjast eins og er að ég og fleiri nefndarmenn hefðum talið mikilvægt að ganga lengra. Í grunninn má segja að þessar efnahagsaðgerðir, fyrstu aðgerðirnar, snúi að mjög stórum hluta að því að fresta gjöldum atvinnulífsins og opna á lánalínur með ríkisábyrgð. Það vantar sannarlega meiri beina innspýtingu inn í efnahagslífið og þar horfi ég sérstaklega til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Okkur er gjarnt að mála hagsmuni atvinnulífs og almennings sem einhverja andstæða hagsmuni í þessu samhengi en það er ágætt að hafa í huga að aðgerðir gagnvart sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum snúast fyrst og fremst í mínum huga um að verja störf, tryggja að sem fæst störf tapist í þeirri niðursveiflu sem við erum að glíma við núna. Þar er bara gott að muna að nærri 50% launþega á Íslandi vinna hjá fyrirtækjum með færri en 20 starfsmenn. Þetta eru fyrst og fremst lítil fyrirtæki, langstærsti fjöldinn, 35%, vinnur hjá fyrirtækjum með færri en tíu starfsmenn. Litlu fyrirtækin, örfyrirtækin í alþjóðlegu samhengi, eru ráðandi rekstrarform í íslensku atvinnulífi. Þessi fyrirtæki eru mörg hver að verða mjög illa úti núna og þar eru hvað flest störf að tapast. Þessi fyrirtæki eiga erfiðast með að fá yfir höfuð einhverja lánafyrirgreiðslu, líka þegar vel árar, og það eru þessi fyrirtæki sem þurfa hvað mestan stuðning á tímum sem þessum. Þess vegna verð ég að segja að það veldur vonbrigðum að í engu hafi í raun verið farið út í einhvers konar niðurfellingu á opinberum gjöldum gagnvart sérstaklega þessum fyrirtækjum. Ég hefði talið fullkomlega réttlætanlegt að miða slíkar aðgerðir, a.m.k. í fyrstu lotu, við þessi litlu fyrirtæki.

Við eigum að hafa í huga að í sóttvarnaskyni hefur fjöldinn allur af litlum þjónustufyrirtækjum beinlínis lokað. Eigendur og starfsfólk eru tekjulaus um ófyrirséða framtíð út af þeim aðgerðum sem við sem samfélag erum að ráðast í til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Það er fullkomlega eðlileg og sjálfsögð krafa, nauðsynleg, að stjórnvöld komi til móts við þessi litlu fyrirtæki vegna mikils tekjumissis. Þetta er þjónusta eins og hárgreiðslustofur, snyrtistofur, sjúkranudd og t.d. alls kyns þjónusta einyrkja í heilbrigðiskerfinu, þjónusta sem verður ekki veitt aftur síðar. Hún dettur einfaldlega út og þetta er gríðarlegt tap fyrir lítil fyrirtæki sem ekki hafa endilega mikið bolmagn til að takast á við slíkt sjálf í gegnum stóran og mikinn efnahagsreikning eins og stærri fyrirtæki hafa oft og tíðum. Þess vegna hefði ég viljað sjá meira afgerandi aðgerðir fyrir litlu fyrirtækin, fyrir þá burðarstoð atvinnusköpunar, burðarstoð heimilanna þar af leiðandi um leið og tekna heimilanna sem í þeim felst.

Við höfum séð það í meðhöndlun þingsins á þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur kynnt hingað til að það hefur tekist að laga ýmislegt. Hlutastarfaleiðin sem sýnir sig um þessi mánaðamót að verður sennilega ein gagnlegasta aðgerðin fyrir atvinnulífið til skamms tíma litið tók stakkaskiptum í meðhöndlun velferðarnefndar í góðri pólitískri sátt meiri hluta og minni hluta þar, en það þurfti að laga hana verulega frá þeim tillögum sem upprunalega komu frá ríkisstjórninni. Ég hefði viljað að við hefðum náð sambærilegri sátt, sambærilegum metnaði um þau mál sem við erum að ræða hér í dag. Ég sakna þess sérstaklega í þessu máli að við höfum ekki gengið lengra gagnvart frestun á öðrum gjalddögum eins og virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum í tolli, þ.e. innflutningsgjöldum. Þetta getur verið verulegt vandamál, sérstaklega fyrir smærri fyrirtækin, á næstu vikum í algjöru tekjuleysi. Þó að það væri ríkur skilningur á því að þetta gæti verið raunverulegt vandamál sakna ég þess að þarna var ekki gripið til varanlegri aðgerða en raun ber vitni. Við erum bara að gera fyrirtækjum í raun og veru kleift að ýta þessu á undan sér og með kostnaði, með dráttarvöxtum. Einungis hér gagnvart virðisaukagjalddaga er verið að leggja það til að álag vegna vanskila verði fellt niður en vanskil munu síðan bera dráttarvexti. Þarna hefði ég viljað ganga lengra og það væri tekið með afgerandi hætti á heimild fyrirtækja til að fresta þessum gjalddaga gegn eins vægu gjaldi og kostur væri.

Að því sögðu vil ég líka hrósa því sem gert er, t.d. mun sú aðgerð að leyfa fyrirtækjum að fresta þremur gjalddögum staðgreiðslu að eigin vali hafa töluverð áhrif, það mun skipta máli fyrir fyrirtæki, lítil sem stór, og hún er allra góðra gjalda verð. Það ber að lofa það sem vel er gert.

Ég saknaði þess að sama skapi að sambærilegum úrræðum væri ekki beitt gagnvart stórum gjaldaliðum eins og virðisaukaskattinum og hinni svokölluðu tollkrít. Enn og aftur sakna ég þess að við erum ekki með beinskeyttari stuðningsaðgerðir við örfyrirtækin okkar, litlu og meðalstóru fyrirtækin sem munu eiga hvað erfiðast með að taka takast á við þennan vanda. Ég held að það sé rétt að við öll sem hér störfum höfum það í huga af því að mér hefur fundist vera andvaraleysi í aðgerðum ríkisstjórnarinnar hingað til. Það er eins og það hafi tekið ríkisstjórnina langan tíma að átta sig á því hversu mikil efnahagsleg áhrif kórónuveiran hefur sem endurspeglast í því að það hefur þurft að bæta verulega í flestar þær aðgerðir sem hingað til hafa verið kynntar. Þrátt fyrir það eru þær í alþjóðlegum samanburði hvað lægstar ef við horfum á höfðatölu, sem hlutfall af landsframleiðslu eða hvernig sem við viljum mæla það, þrátt fyrir hið augljósa, að ekkert vestrænt ríki er með jafn mikið vægi ferðaþjónustu í sínum þjóðarbúskap og Ísland og engin atvinnugrein um allan heim verður eins illa úti og einmitt ferðaþjónustan í þeim heimsfaraldri sem við erum að glíma við.

Ég vona að við náum saman um það hér á komandi vikum að grípa til enn frekari aðgerða. Ég sakna þess að ekki hafi verið stigið inn í þennan aðgerðapakka af meiri þunga en raun ber vitni. Að því sögðu skrifa ég undir þetta nefndarálit og þakka fyrir þá samvinnu sem þó náðist. Hún var mjög góð í efnahags- og viðskiptanefnd í liðinni viku en ég skrifa undir álitið með fyrirvara sem ég hef gert grein fyrir hér í grófum dráttum.