150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 samhliða tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak. Nefndin fjallaði um málið á fjölmörgum fjarfundum og átti samtal við umsagnaraðila og ég þakka skjót viðbrögð þessara fjölmörgu aðila með umsögnum og samtali sem er ávallt mikilvægt. Þeir eru tilgreindir fremst í rituðu nefndaráliti meiri hluta á þskj. 1190 sem tekur til beggja málanna eins og þar kemur fram. Meginefni frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2020 má skipta í þrjá meginliði, gjaldaheimildir, hækkun lánsfjárheimildar og ýmsar heimildir til handa fjármála- og efnahagsráðherra til breytinga á 6. gr. fjárlaga.

Í fyrsta lagi er óskað eftir samtals 21,1 milljarðs kr. gjaldaheimildum sem koma fram á þremur málefnasviðum og flokkum. Þær skiptast í 15 milljarða kr. sérstakt fjárfestingarátak, 3,1 milljarð vegna sérstaks barnabótaauka og loks 3 milljarða vegna sérstaks markaðsátaks í ferðaþjónustu.

Í öðru lagi er óskað eftir hækkun heimildar til lántöku ríkissjóðs upp á 95 milljarða kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum, allt að 140 milljarða kr.

Þá er í þriðja lagi óskað eftir fimm nýjum heimildum sem bætist við 6. gr. fjárlaga um heimildir fjármála- og efnahagsráðherra. Auk þeirra ráðstafana sem ég hef þegar talið upp er að lokum farið fram á heimild til ráðherra til að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs vegna viðbótarrekstrarlána til þeirra fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, allt að 70%. Jafnframt er ráðherra heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu þeirrar ábyrgðar gagnvart lánastofnunum.

Í væntanlegum samningi skal tilgreina þau hlutlægu skilyrði sem lögð verða til grundvallar ákvörðunum um skiptingu ábyrgða á milli lánastofnana, ásamt nánari skilyrðum um hvernig tryggja megi að fyrirgreiðsla lánastofnana byggist á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir slíkri fyrirgreiðslu. Ég hygg að nefndin öll, meiri hlutinn í þessu tilviki, leggi áherslu á það.

Í umfjöllun nefndarinnar og í samtali við umsagnaraðila kemur almennt fram ánægja með aðgerðir stjórnvalda sem birtast í frumvarpinu og í frumvarpi til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Það mál er nr. 683 og við ræddum það hér á undan, virðulegi forseti.

Jafnframt er bent á að nauðsynlegt gæti reynst að grípa til enn frekari aðgerða til að mæta þeim efnahagslegu áskorunum sem faraldurinn orsakar. Niðursveiflan kemur harkalega niður á atvinnulífinu og mikil óvissa er enn um efnahagsleg áhrif á fjölmargar atvinnugreinar og heimili landsins. Allar aðgerðir sem þessar miða hingað til að því, um leið og heilbrigðisþátturinn er í forgangi, að verja fyrirtæki, efnahag heimila og störf landsmanna. Mikið álag er á heilbrigðiskerfinu. Bæði er beinn kostnaður vegna veirufaraldursins en einnig er um að ræða röskun á hefðbundinni starfsemi heilbrigðiskerfisins sem nokkurn tíma getur tekið að vinna upp að nýju að faraldrinum loknum. Það er mikilvægt að halda utan um þann kostnað sem af þessu hlýst svo hægt sé að mæta honum með markvissum hætti með fjáraukalögum.

Meiri hlutinn vekur sérstaklega athygli á stöðu heilbrigðisstarfsmanna en gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana. Eitt af úrræðunum er myndun bakvarðasveita heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar. Það er athyglisvert hvað fólk er tilbúið að leggja á sig við slíkar kringumstæður og heilbrigðisstarfsfólk víða að úr samfélaginu hefur þegar skráð sig. Fjölmargir vilja þannig taka þátt í að leysa þennan tímabundna vanda, stéttirnar í framlínunni, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og læknar, á þessum hættutímum. Meiri hlutinn leggur áherslu á og telur mikilvægt að viðurkenna og þakka störf þeirra. Mikilvægi þessara starfsstétta er óumdeilt.

Þær forsendur sem fjárlög ársins byggja á fyrir 2020 eru brostnar, eins og margoft hefur verið rætt og víða, en Seðlabankinn birti fyrir skömmu sviðsmyndir. Önnur er dekkri og hin mildari. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í þær sviðsmyndir en vil segja að markmið Seðlabankans um verðstöðugleika hafa gengið eftir undanfarin ár. Eftir sem áður leggur meiri hlutinn áherslu á að stjórnvöld meti stöðugt verðlagsþróun eftir því sem tíma vindur fram, ekki síst með hag heimilanna að leiðarljósi. Það kom mjög skýrt fram í samtölum okkar að það eru raunverulegar áhyggjur af því að hér geti komið verðbólguskot þegar fram líða stundir og þær áhyggjur komust vel til skila til nefndarinnar.

Meiri hlutinn tekur undir að mikilvægt sé að viðhalda verðstöðugleika sem náðst hefur á undanförnum árum og átti samtöl við Hagsmunasamtök heimilanna, Alþýðusamband Íslands, Seðlabankann og fleiri aðila. Hann leggur áherslu á að stjórnvöld vakti þetta sérstaklega. Ætla má að óvissan sem fylgir faraldrinum valdi miklum samdrætti í atvinnuvegafjárfestingu. Það er útlit fyrir meiri samdrátt íbúðarfjárfestingar í ár en spáð hafði verið áður en faraldurinn braust út þannig að við vorum komin í einhvers konar hjöðnun hagvaxtar, jafnvel við þær aðstæður sem við vorum farin að horfa framan í en við aðstæður sem við höfum ekki áður horfst í augu við af þessum toga er mikilvægt að hið opinbera bregðist við eins og birtist í fjárfestingarátaki og ráðist í mannaflsfrekar og arðbærar framkvæmdir. Víða hefur komið fram að ríkissjóður er blessunarlega vel í stakk búinn til að ráðast núna í slíkar framkvæmdir. Það byggir á því að skynsamlega hefur verið haldið á málum undanfarin ár, sérstaklega með tilliti til þess að skuldir hafa verið greiddar niður.

Hið sama má segja um efnahag heimila og fyrirtækja þar sem skuldir hafa lækkað. Þá vil ég draga fram að í gildandi fjárlögum eru fjárfestingar þegar 75 milljarðar og hafa tvöfaldast frá fjárlögum 2016. Það er mikilvægt að bæta í eins og við erum að gera hér og birtist útfærslan í þeirri þingsályktunartillögu sem fylgir. Það er mjög mikilvægt að þær aðgerðir sem við erum að fara í hér náist inn á þetta ár en eins og lagt var upp með í þingsályktunartillögu eru viðmiðin þau að þær framkvæmdir sem birtast í fjárauka og þingsályktunartillögu hefjist eigi síðar en 1. september á þessu ári og verði lokið eigi síðar en 1. apríl 2021.

Skiptingu verkefna má síðan sjá í töflu á bls. 13 í greinargerð tillögunnar. Þetta fjárfestingarátak fær almennt mjög jákvæð viðbrögð umsagnaraðila. Nokkrir þeirra leggja til að fjármunum verði bætt í átakið og benda á ýmsar leiðir í því sambandi, svo sem hækkun framlags í Tækniþróunarsjóð, aukna endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði og samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, sem er frumvarp hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og hefur verið lagt fram í þinginu. Þetta hlaut mikla umræðu í nefndinni og og það er alveg rétt að við verðum að horfa fram í tímann og um leið og við vinnum okkur í gegnum þá óvissutíma sem eru núna og horfa til þess að þetta eru ekki endanlegar aðgerðir með neinum hætti. Fjölmörg verkefni eru brýn og eru í undirbúningi.

Meiri hlutinn væntir þess að fleiri skref verði tekin sem eru m.a. boðuð í greinargerð með frumvarpinu. Hann telur að sama skapi brýnt, eins og við sjáum birtast hér, að forgangsraða frekari fjármunum til rannsókna og nýsköpunar auk innviðafjárfestinga í samgöngum og til byggingar hjúkrunarheimila.

Meiri hlutinn gerir nokkrar breytingartillögur til hækkunar framlaga til fjárfestingarátaks sem eru skýrðar í sérstökum kafla í nefndarálitinu auk annarra breytingartillagna.

Í frumvarpinu er óskað eftir 3,1 milljarðs kr. framlagi til sérstaks barnabótaauka. Sú tillaga er útfærð í því máli sem við ræddum hér á undan um aðgerðapakkann og ég held að þar hafi náðst ágætislending um það mál. Umsagnaraðilar voru almennt mjög jákvæðir gagnvart tillögunni en skoðanir voru eðlilega skiptar um útfærslu. Þar var tekjutenging kannski helsta atriðið og þær upplýsingar sem við höfum gagnvart tekjum eins og þær birtast í dag og til samanburðar við síðasta ár. Þar er lögð til önnur útfærsla en birtist upphaflega í frumvarpinu, í breytingartillögum í því máli, og ég held að þar hafi náðst ágætislending sem var farið ágætlega yfir áðan. Gert er ráð fyrir að þessi breyting rúmist innan fjárheimildarinnar sem við erum að fara að samþykkja í þessu fjáraukalagafrumvarpi.

Í frumvarpinu er jafnframt óskað eftir 3 milljörðum kr. vegna markaðsátaks sem tengist ferðaþjónustunni til að bregðast við fækkun ferðamanna. Það er áætlað að það skiptist til helminga í alþjóðlegt markaðsátak og svo átak vegna markaðssetningar innan lands.

Þá er eins og ég sagði fyrr óskað eftir að lánsfjárheimild ríkissjóðs verði hækkuð úr 45 milljörðum kr. í 140 milljarða kr. vegna aukinnar fjárþarfar ríkissjóðs. Nokkrir umsagnaraðilar hafa bent á að þessi 95 milljarða kr. hækkun kunni að vera vanmetin. Mat meiri hlutans er að ekki sé þörf á að hækka lánsfjárheimildina meira að svo stöddu. Meiri hlutinn mun þó fylgjast vel með stöðunni á næstu vikum og mánuðum og hugsanlega þarf að koma til endurskoðunar þessarar lánsfjárþarfar seinna meir.

Hér er gerð tillaga um heimild til að auka hlutafé ríkisfyrirtækja í því skyni að efla fjárfestingargetu þeirra. Umfangið hefur ekki verið afmarkað en gert er ráð fyrir að það geti numið allt að 8 milljörðum. Þau félög sem helst er horft til í þessu sambandi eru Isavia ohf. og Farice ehf. Bæði þessi félög eru 100% í eigu ríkisins. Það blasir við á þessum tímum að útbreiðsla kórónuveirunnar hefur haft mjög mikil áhrif á rekstur og starfsemi Isavia og ljóst að félagið mun þurfa að endurskipuleggja rekstur sinn næstu mánuði. Því er útilokað að félagið geti staðið undir fyrrgreindu fjárfestingarstigi án stuðnings frá ríkinu. Hér er einnig hugað að því að Suðurnes hafa nú þegar orðið hart úti í atvinnulegu tilliti af völdum kórónuveirunnar. Atvinnuleysi þar er og var fyrir meira en annars staðar á landinu. Ég held að það hafi verið full samstaða í nefndinni um að þarna þyrfti sérstakt átak og við horfum á þessa leið sem hluta af þeim aðgerðum sem brýnt er að fara í.

Hér er gerð tillaga um heimild til handa ráðherra að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs sem nemi á bilinu 50–70% höfuðstóls viðbótarlána til þeirra fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldursins. Meiri hlutinn og nefndin raunar öll varð sammála um mikilvægi þess að tryggja umbúnaðinn og gagnsæið við þessa ráðstöfun. Þessi heimild kallar á breytingar í máli 683 og m.a. felst í heimildinni að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum. Að gerðum samningi milli ráðherra og Seðlabankans mun bankinn gera samning við lánastofnanir þar sem umfang og skilyrði ábyrgða verða skilgreind nánar. Meiri hlutinn leggur til að heimilaður verði aukinn sveigjanleiki um hlutfall ábyrgða þannig að þær geti orðið á bilinu 50–70%.

Í samningi ráðherra við Seðlabankann er nauðsynlegt að setja fram skilyrði um með hvaða hætti bankinn ráðstafar því svigrúmi sem hann hefur til veitingar ábyrgða til einstakra lánastofnana. Hér þarf að tryggja að fyrirgreiðsla lánastofnana byggist á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir fyrirgreiðslu. Eigi að síður er í ljósi óvissunnar um stöðu fyrirtækja og umfang og eðli þess rekstrarvanda sem þau standa frammi fyrir nauðsynlegt að veita ákveðinn sveigjanleika við útfærslu þeirra skilyrða sem sett verða við veitingu ábyrgða vegna viðbótarlána þannig að fyrirgreiðslan nýtist þeim fyrirtækjum best sem mest þurfa á henni að halda. Meiri hlutinn metur það svo að afla þurfi nánari upplýsinga um stöðu fyrirtækja á næstu dögum og vikum. Til viðbótar þeim skilyrðum sem nefnd eru í greinargerð frumvarpsins tekur meiri hlutinn undir breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru í máli 683, að ráðherra skipi nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis. Nefndin skal skila ráðherra skýrslu um framkvæmdina og leggja hana fyrir Alþingi.

Að auki leggur meiri hlutinn til að sett verði skilyrði um að fyrirtækjum með viðbótarlán með ríkisábyrgð sé hvorki heimilt að greiða eigendum sínum arð né kaupa eigin hlutabréf meðan lánin eru útistandandi. Þetta er í samræmi við þá tillögu sem við sjáum í máli 683.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að þau skilyrði sem fram koma í greinargerðinni liggi til grundvallar og verði útfærð nánar í samningi fjármála- og efnahagsráðherra og Seðlabankans og að þau verði lögð fyrir nefndina til umfjöllunar áður en samningurinn verður undirritaður.

Meiri hlutinn stendur að nokkrum breytingartillögum eftir umfjöllun nefndarinnar og ég held að fullyrða megi að samstaða hafi verið í allri nefndinni um þær breytingar sem eru lagðar til af meiri hlutanum, en eðlilega er ekki full samstaða um hversu langt á að ganga í þessari atrennu.

Eins og ég kom að í upphafi framsögu eru fjáraukalagafrumvarpið og þingsályktunartillagan samofin. Þingsályktunartillagan er um fjárfestingarátakið og útfærslu á því þar sem fjárveiting til fjárfestingarátaksins er svo hluti fjáraukalagafrumvarpsins.

Meiri hlutinn er með tvær breytingartillögur við fjáraukalagafrumvarpið á þskj. 1191 og 1192, auk þess að leggja til breytingu á þingsályktunartillögunni sem kemur fyrir á þskj. 1193. Á þskj. 1191 eru allar tölulegar breytingar meiri hluta við fjáraukalagafrumvarpið. Þær nema samtals 4.476 millj. kr. og þar af eru 2.936 millj. kr. vegna fjárfestingarátaksins og er það sundurliðað í breytingartillögu við átakið. 1.540 millj. kr. sundurliðast síðan þannig að 1 milljarður skiptist á þrjá málaflokka, til heilbrigðismála þar sem við erum byrjuð að vinna inn á þann rekstrarkostnað sem hlýst af því að mæta faraldrinum; 400 millj. kr. eru einskiptisgreiðsla til örorkulífeyrisþega. Þar erum við að mæta þeim hópi sem hefur lægstu bætur og sú leið er ekki ólík þeirri sem var farin í desember og var viðbótardesemberuppbót. Þetta er skatta- og skerðingarlaust, virðulegur forseti, og kallast á við fráganginn í máli 683.

Við svona aðstæður einangrast margir hópar og þessi vandræði skella kannski þyngra á þeim. Við horfum til geðheilbrigðismála og fjölda frjálsra félagasamtaka. Við áttum gott samtal við Geðhjálp sem vinnur mjög gott starf til að mæta þörfum þessara hópa við erfiðar aðstæður. Nefndin ákvað að leggja til 40 milljónir til þeirra verkefna. Ráðherrann og félagsmálaráðuneytið hefur mesta yfirsýn yfir það hvar þörfin er brýnust og hvar hann getur mætt þeim fjölmörgu störfum sem birtast dag frá degi.

Breytingar meiri hluta við fjárfestingarátakið felast m.a. í því að auka enn frekar framlög til rannsókna og nýsköpunar og skapandi greina, um 1.250 millj. kr. Einnig er 510 millj. kr. aukning í viðhald og endurbætur. Þá eru 480 millj. kr. í nýbyggingar, 300 millj. kr. í önnur innviðaverkefni, 296 millj. kr. til viðhalds og endurbóta á flugvöllum og loks 100 millj. kr. í verkefni í orkuskiptum og grænum lausnum, samtals 2.936 millj. kr.

Mér mun ekki vinnast tími, virðulegur forseti, til að fara í hvert þessara atriða en við áttum gott samtal og samvinnu um þau í nefndinni.

Meiri hlutinn áréttar að þessum málum, fjárauka- og fjárfestingarátaki og aðgerðum sem boðaðar eru í þessari atrennu, lýkur ekki á þessari stundu. Hér erum við þó að taka skref í rétta átt til að mæta ríkjandi ástandi. Við þurfum á því að halda að takast saman á við þetta ástand, verja efnahag heimila, störfin í landinu, efnahag fyrirtækjanna og fólkið sameiginlega í föstum, öruggum skrefum og greiða jafnóðum úr óvissunni, bæði er varðar heilbrigðisþáttinn sem er í forgrunni og svo hinar efnahagslegu áskoranir sem fylgja. Ég hvet okkur öll til að huga að öllum þeim aðgerðum sem duga til að bæta úr.

Ég vil í lokin, virðulegi forseti, nota tækifærið og þakka allri nefndinni fyrir góða samvinnu, framlag allra í nefndinni. Minn skilningur af þessari vinnu í nefndinni er sá að samstaða sé um málið sem við erum að fara að samþykkja hér sem og breytingarnar en eðlilega eru margir sem vilja ganga lengra í þessari atrennu. Það eru bara skoðanir sem ber að virða og umbera. Fjölmörg verkefni birtast í breytingartillögum minni hluta sem verða á dagskrá. Ég held að það sé mjög gott mál að þeim sé varpað fram hér og að þær hugmyndir hafi komið fram við afgreiðslu þessa máls.

Birgir Þórarinsson skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann mun gera grein fyrir í ræðu. Inga Sæland skrifar jafnframt undir nefndarálitið með þeim fyrirvara sem þegar er viðurkenndur, að aðgerðum stjórnvalda ljúki ekki með þessum þingmálum. Samþykkt þeirra með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til er hins vegar fyrsta skrefið í rétta átt og mun koma að miklu gagni við að takmarka þann óhjákvæmilega skaða sem verður vegna áhrifa heimsfaraldursins er veldur Covid-19 sjúkdómnum og hefði viljað sjá öflugri stuðning við fátækt fólk og fjölskyldur strax. Það eru grundvallarmannréttindi að ríkisvaldið uppfylli grunnþarfir borgaranna um fæði, klæði, húsnæði og hvers konar nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að málin verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef gert grein fyrir og lagðar eru til og tilgreindar í nefndaráliti meiri hlutans og í sérstökum þingskjölum breytingartillagna sem ég hef þegar vísað til. Undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Þórarinsson, með fyrirvara, og Inga Sæland, með fyrirvara.