150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja formann fjárlaganefndar varðandi skilyrði brúarlána. Brúarlánin eru ein af stærstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ég velti því fyrir mér hvort formaður fjárlaganefndar sé sammála mér um að það verði upplýst hvaða fyrirtæki munu njóta ríkistryggðra brúarlána. Þetta hefur ekki komið til tals eftir því sem ég best veit, en það skiptir miklu máli að hér verði enginn feluleikur. Bæði almenningur og ekki síst önnur fyrirtæki sem munu ekki njóta ríkisábyrgðar eiga rétt á því að mínu mati að vita hvaða samkeppnisfyrirtæki þeirra njóta ríkisábyrgðar. Það skiptir miklu máli að hér sé ekki verið að skýla sér á bak við bankaleynd. Mig langar að fá pólitíska skoðun formanns fjárlaganefndar og hug hans til þeirra þátta, hvort ekki standi til að upplýsa almenning og atvinnulíf um hvaða fyrirtæki munu njóta þessarar ríkisábyrgðar. Með því úrræði er íslenskur almenningur að taka á sig allt að 50 milljarða kr. ríkisábyrgð fyrirtækja úti í bæ. Þetta þarf að vera uppi á borði, herra forseti. Þannig tryggjum við jafnræði og gagnsæi. Ég held að íslenska þjóðin sé búin að fá nóg af gráum listum og pilsfaldakapítalisma. Þetta væri mjög einföld leið til að tryggja aukið traust á þeirri aðgerð. Spurningin er til hv. þingmanns: Er hann til í að styðja það, þegar skilyrði brúarlánanna munu koma til umræðu í fjárlaganefnd, eins og ég skildi það í nefndinni fyrir helgi, að við setjum það sem skilyrði að upplýst verði hvaða fyrirtæki það eru sem fá brúarlán?