150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[17:40]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fjárlaganefnd fyrir góða vinnu og gott samstarf í vikunni á öllum fjarfundunum og öllum klukkustundunum við skjáinn. Þetta er búið að vera ánægjulegt og ganga mjög vel. Það er góður andi í nefndinni og ég held að það sé almenn sátt um hvað við erum að fara að gera og hvaða verk við ætlum að vinna með sóma á næstu misserum þó að kannski séu ekki allir sammála um upphæðirnar sem við ætlum að verja á þeim níu mánuðum sem eftir lifa ársins eins og gert er ráð fyrir í fjáraukanum og fjárfestingaráætluninni. Við ræðum hér um fjáraukalög 2020 og sérstakt tímabundið fjárfestingarátak sem hefur skapast vegna Covid-19. Í fjáraukanum er m.a. fjárfestingarpakki ríkisstjórnarinnar upp á 15 milljarða og meiri hluti fjárlaganefndar bætir síðan við 3 milljörðum beint í fjárfestingar sem tengjast þessu átaki. Í hinum svokölluðu C-hluta fyrirtækjum þar sem ríkið er með eignarhald bætast við um 5 milljarðar.

Í fjárlögunum sem við samþykktum í desember var gert ráð fyrir fjárfestingu árið 2020 upp á rúma 74 milljarða. Með viðbótum ríkisstjórnarinnar og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er þessi upphæð komin yfir 90 milljarða, um 3% af landsframleiðslu sem er tiltölulega hátt miðað við hvað við höfum séð í fjárfestingum á vegum ríkisins miðað við landsframleiðslu á undanförnum árum. Það þarf að fara töluvert langt aftur í tímann til að sjá slíkar fjárfestingar á vegum ríkisins.

Ég ætla að ræða hér sérstaklega það sem snýr að samgöngumálum og hvað kemur frá meiri hluta fjárlaganefndar, fjármagn til samgöngubóta sem snúa að flugvallakerfi landsins. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að 296 milljónir renni til flugvallakerfisins á landsbyggðinni. Þar er áhersla lögð á tvö verkefni, nýtt slitlag á Þórshafnarflugvelli og að loksins verði farið í að malbika bílastæðin við Ísafjarðarflugvöll sem lengi hefur verið beðið eftir. Mig grunar að í 40–50 ár sé búið að ræða um að malbika bílastæðin og lengi hefur verið kallað eftir því enda er ástandið oft slæmt á því ágæta bílastæði og kominn tími til að ganga frá því með sóma. Þar fyrir utan er óskipt framlag, 90 milljónir, til viðhaldsverkefna annarra flugvalla og lendingarstaða. Það er til verkefna eins og vegna ljósabúnaðar á flugvellinum á Blönduósi sem gegnir mikilvægu hlutverki, t.d. vegna sjúkraflugs. Hér er rétt að benda líka á Norðfjarðarflugvöll. Þar hefur verið beðið eftir uppbyggingu á ljósabúnaði við flugvöllinn sem var endurbyggður fyrir nokkrum árum þar sem heimamenn og ríkisvaldið skiptu fjárfestingunni á milli sín og mig minnir að 140–150 milljónir hafi verið lagðar í bundið slitlag á flugvellinum. Rétt er að nota hluta af þeirri 90 milljóna fjárheimild sem kemur frá meiri hluta fjárlaganefndar, ef þetta verður samþykkt allt á eftir, líka til framkvæmda við ljósabúnað á Norðfirði. 126 millj. kr. fara sem sagt til Þórshafnarflugvallar. Þar hefur ástand flugvallarins ekki verið nógu gott og kominn tími á að leggja nýtt slitlag á flugbrautina, akbraut og flughlað. Kostnaður við að malbika bílastæðin á Ísafirði er um 80 millj. kr. og síðan fara 90 millj. kr. í þessu átaki til innanlandsflugvallakerfisins að öðru leyti í viðbætur vítt og breitt.

Það er rétt að benda á mikilvægi þess að byggja upp innviðina á nýjan leik. Þessir vellir, eins og Norðfjarðarflugvöllur og flugvöllurinn á Blönduósi, hafa verið töluvert mikið notaðir í sjúkraflug og það þarf að hafa góðan búnað á þeim, bæði ljósabúnað fyrir aðflugið og að hægt sé að fljúga á næturnar svo vel sé.

Ég fagna þessum verkefnum og því fjármagni sem kemur frá meiri hluta fjárlaganefndar. Ég tel að hér séu loksins tekin fyrstu skrefin í því að laga innviðaskuld í flugvallakerfi landsins. Í skýrslu Isavia sem skilað var í nóvember 2018 í tengslum við samgönguáætlun sem við samþykktum í febrúar í fyrra kemur fram að viðhaldi flugvallakerfis innanlandsflugsins hafi verið illa sinnt um langt árabil í rúm tíu ár og að 2 milljarða vanti til að bæta ástandið á innanlandsflugvöllunum. Hér er verið að veita um 300 milljónir til innanlandsflugvallakerfisins og ég lít á þetta sem fyrsta skref í þá átt.

Í meirihlutaálitinu kemur fleira inn varðandi nýbyggingar og meiri háttar endurbætur. Þar er lagt til að gamla ríkið á Seyðisfirði verði endurbyggt og til þess verkefnis verði veittar 100 milljónir. Það hús var byggt árið 1917 og ÁTVR hefur verið með verslun í húsinu síðan árið 1960. Einnig er gert ráð fyrir að Sjúkrahúsið á Akureyri fái 80 millj. kr. til fullnaðarhönnunar á nýrri legudeildarálmu en þarfagreiningu er lokið. Á þeim níu mánuðum sem eftir lifa árs er hægt að hefja fullnaðarhönnun á þeirri framkvæmd sem bíður okkar. Auk þess er lagt til að Heilbrigðisstofnun Norðurlands eystra fái 100 millj. kr. Það er búið að vinna þarfagreiningu fyrir tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri og með þessum fjármunum er hægt að hefja hönnunarvinnu sem er einstaklega ánægjulegt. Lengi hefur verið beðið eftir því að framkvæmdir í tengslum við uppbyggingu nýrrar heilsugæslu hefjist á Akureyri og í stað einnar heilsugæslustöðvar, eins og er í dag, verði þær tvær. Samlagið við heilsugæslustöðina á Akureyri er 22.000 manns. Það er talið hentugast í slíkum rekstri að fara ekki mikið yfir 15.000 manns. Húsnæði heilsugæslustöðvarinnar við Hafnarstræti á Akureyri hefur þótt dapurlegt um langt skeið og löngu komin þörf á að fara í uppbyggingu á stöðinni. Þess má geta að samlög læknanna á heilsugæslustöðinni á Akureyri eru stór og að meðaltali er samlag hvers læknis þar 3.000–3.500 einstaklingar en talið er æskilegt að þeir séu 1.500. Það er stórt verkefni fram undan að koma þessu í betra horf.

Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er einnig gert ráð fyrir 200 millj. kr. framlagi til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að bæta aðkomu sjúkrabifreiða að húsnæði stofnunarinnar. Í sóknaráætlanir er varið 200 milljónum sem bætast við þær að mig minnir 700 milljónir sem eru í fjárlögum 2020 þannig að þar er töluverð viðbót. Í markaðsátak ferðaþjónustunnar á að verja 3 milljörðum, 1,5 milljörðum í markaðsátak innan lands sem Ferðamálastofa skipuleggur og síðan 1,5 milljörðum í markaðssetningu erlendis og mun Íslandsstofa stýra því verkefni. Ég á ekki von á öðru en að það verði unnið í góðu samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og markaðsstofur ferðaþjónustunnar vítt og breitt um landið.

Í fjárfestingaráætlun sem fylgir þessu frumvarpi frá ríkisstjórninni er gert ráð fyrir 50 millj. kr. framlagi til hönnunar flughlaðs og akbrautar á Egilsstaðaflugvelli. Nú á að fara í að hanna mannvirkin sem tengjast þeirri framkvæmd sem allra fyrst og svo í frekari framkvæmdir í framhaldinu. Í flughlað á Akureyrarflugvelli er í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar varið 300 milljónum á þessu ári og til nýrrar flugstöðvar á Akureyrarflugvelli 200 milljónum.

Í framhaldi af þeirri fjárfestingaráætlun sem hér er sett fram sem hluti af fjárauka fyrir árið 2020 styttist í að þriggja ára fjárfestingaráætlun verði kynnt fyrir árin 2021, 2022 og 2023 upp á samtals 60 milljarða kr. Þar mun birtast hvernig frekari fjármögnun fer fram á þeim verkefnum sem ég taldi upp áðan. Þetta eru mál sem ég hef talað lengi fyrir í þinginu, síðan ég byrjaði hér, á fyrsta fundi. Það er gríðarlega mikilvægt að hér séu byggðir upp innviðir sem tengjast flugrekstri á Íslandi þegar horft er til lengri framtíðar. Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá þessar framkvæmdir koma fram í gegnum fjárfestingaráætlanirnar sem hér eru kynntar.

Það er gróft mat miðað við það fjárfestingarátak sem hér er lagt fram að um 500–700 bein störf skapist sem kalla síðan á frekari óbein störf. Með því sem tengist ohf.-unum og fyrirtækjum í eigu ríkisins, áætlun ríkisstjórnar og viðbót frá meiri hluta fjárlaganefndar eru þetta samtals 23 milljarðar og er skotið á að þetta gætu verið 800 ársverk. Samkvæmt fjárlögum fyrir 2020 var reiknað með 74 milljörðum kr. í fjárfestingar á árinu 2020 en með þeirri viðbót sem kemur hér fara fjárfestingar ríkisins yfir 90 milljarða á þessu ári. Sú tala er tvisvar sinnum hærri en kom fram í reikningum ríkisins fyrir 2016 um fjárfestingar á því ári, um 46 milljarðar. Þetta er tvöföldun á þessum árum.

Í Tækniþróunarsjóð eru lagðar til, til viðbótar þeim framlögum sem voru í fjárlögum, 400 milljónir frá ríkisstjórn og bætt við 300 milljónum frá meiri hluta fjárlaganefndar. Þetta eru samtals 700 milljónir þannig að fjármagn í Tækniþróunarsjóð á þessu ári sem lagt er fram er samtals rúmir 3 milljarðar, um 30% aukning á milli ára. Á síðustu tíu árum hafa þessar fjárveitingar rúmlega þrefaldast á verðlagi 2019 þannig að stöðugt er verið að bæta í það mikilvæga starf sem unnið er í tengslum við Tækniþróunarsjóðinn.

Árið 2009 voru sett lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og tóku þau gildi á rekstrarárinu 2010. Markmið laganna er að beita skattalegum hvötum til að efla rannsóknir og þróunarstarf nýsköpunarfyrirtækja og stuðla þannig að bættum samkeppnisskilyrðum fyrirtækja. Lögin fela í sér að nýsköpunarfyrirtæki, sem eru eigendur rannsókna- og þróunarverkefna sem sótt hafa um og hlotið staðfestingu Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Rannís, eigi rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti. Þessi stuðningur hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2016. Áætlað er að þessi stuðningur nemi um 4 milljörðum kr. á árinu 2020 og hefur þar með vel rúmlega tvöfaldast frá 2016.

Í störfum fjárlaganefndar síðustu viku hefur einmitt töluvert verið rætt um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki í gegnum Rannsóknasjóð og síðan Tækniþróunarsjóð. Gögnin sýna mikinn vöxt í þessum málum á undanförnum árum. Auðvitað má gera betur, unnið er að því og má vænta árangurs á næstu árum. Þetta er töluverð breyting og ánægjulegt að sjá hversu mikil aukningin hefur verið á síðustu árum.

Þetta er gríðarlega stórt og mikið verkefni sem eigum við hér og fordæmalaust eins og oft er sagt. Er nóg að gert í þessu máli? Það hefur margoft verið rætt hér að við erum ekki að fara að leysa með þeim málum sem eru til umræðu í dag öll heimsins vandamál sem snúa að þessum málum næstu mánuði. Þetta er fyrsta skref og mjög gott og öflugt, held ég. Það má segja að við séum að skipta aðgerðum í annars vegar varnir og vernd og hins vegar í viðspyrnu. Þegar kemur að vernd og vörnum er verið að styðja við störf með hlutastarfaleiðinni, viðbótarlánum til fyrirtækja, frestun á skattgreiðslum ásamt sérstökum barnabótaauka. Hlutastarfaleiðin gæti á næstu tíu vikum kostað 20 eða jafnvel 30 milljarða. Frestun skattgreiðslna gæti út sumarið aukið lausafjárstöðu fyrirtækja um 100 milljarða kr. Viðspyrnan felst annars vegar í verulega auknum fjárfestingum í ár og á næstu árum en hins vegar í því að aðgerðir okkar vegna varna og verndar dugi til að fyrirtæki séu nægilega sterk að nýta sér þann meðbyr sem fyrirséð er að verði þegar óveðrinu slotar. Gagnvart fyrirtækjum er gert ráð fyrir að skattfrestun næstu mánuði sé upp á samtals um 90 milljarða kr. Viðbótarlán með ríkisábyrgð gætu numið um 70 milljörðum kr. og hlutabætur til að greiða launakostnað, eins og ég sagði áðan, gætu numið 20–30 milljörðum. Til samanburðar eru óbundin innlán fyrirtækja í bönkunum núna um 350 milljarðar kr.

Það hefur verið erfitt að spá í það hversu margir fara á hlutabætur. Það hefur nú þegar komið í ljós að um 20.000 einstaklingar, 10% af vinnuafli á Íslandi, í 3.700 fyrirtækjum hafa sótt um bætur hjá Vinnumálastofnun vegna skerts starfshlutfalls. Það er gríðarlegur fjöldi sem er kominn á fyrstu dögum. Hlutabótaaðgerðin er til þess fallin að draga úr óvissu hjá bæði heimilum og fyrirtækjum og er því gríðarlega mikilvægur og stór hluti af þeirri áætlun sem unnið er eftir. Einstaklingar sem ella gætu misst vinnuna fara í lægra starfshlutfall og þeim eru tryggðar tekjur í gegnum tímabundna erfiðleika. Þannig er komið í veg fyrir meiri samdrátt eftirspurnar en raunin er nú þegar vegna óvissunnar.

Áætlað er að skattfrestunin styrki lausafjárstöðu fyrirtækja um u.þ.b. 90 milljarða kr. á næstu mánuðum. Það er gríðarlegt átak. Það má reikna með því að á næstu vikum, í lok apríl eða í maí, verði kynntur stóri pakkinn fyrir næstu þrjú ár, fjárfestingarpakkinn fyrir 2021, 2022 og 2023. Í honum er horft til lengri tíma í framhaldi af því fjárfestingarátaki sem hér er kynnt. Við erum með mjög mörg stór og spennandi verkefni í þeim pakka eins og Stafrænt Ísland og ég held að það verkefni muni stuðla að því að umbreyta samfélagi okkar. Eins og við erum að kynnast þessa dagana er stafræn tækni og margt í tengslum við hana að umbreyta hlutum hjá okkur. Ég er bjartsýnn á að við munum skora mun hærra eftir einhver ár á alþjóðlegum listum varðandi stafræna tækni í rekstri ríkisins.

Ég er mjög sáttur við það sem hér hefur komið fram, mörg stór og gríðarlega mikilvæg verkefni sem við erum að samþykkja hér og verður mjög spennandi að fylgjast með því hvernig okkur tekst á næstu misserum að koma þessum peningum í vinnu í íslensku samfélagi.