150. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2020.

fjöldi þingmanna í þingsal.

[10:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil biðja sitjandi forseta fyrst um að kalla eftir því að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis — Er hann mættur? Flott. Hann sagðist nefnilega myndu mæta.

Sóttvarnalögin í landinu segja alveg skýrt að það sé lögbundin skylda hvers einasta einstaklings, með leyfi forseta, að „gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er“. Það er komin stefna innan Alþingis um að ekki megi vera nema 20 þingmenn á efri hæð í húsinu. — Einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átta, níu, tíu, 11, 12, 13, 14, 15, 16, 17, 18, 19, 20, 21, 22, 23, 24, 25, 26 — og það eru bara þeir sem ég sé. Þetta er vegna þess að við þurfum að koma hingað og benda þingforseta á að hann hegði sér ekki í samræmi við það sem er búið að gefa yfirlýsingar um í samfélaginu, um að virða samkomubann. Karpað var við hæstv. forseta í allan gærdag og í tölvupóstum og hann veit að ef hann er að fara að setja mál á dagskrá sem er ágreiningur um mætum við þingmenn hingað að sjálfsögðu og virðum lýðræðið. Samt ákvað hann að halda þessu til streitu, halda þingfundinn og hafa dagskrána svona. Hann hefur dagskrárvaldið.

Það er ólíðandi að bjóða starfsfólki Alþingis upp á þetta sem er komið í meiri sýkingarhættu vegna þessa. Það er ólíðandi að bjóða þinginu upp á þetta. Það er ólíðandi að bjóða lýðræðinu upp á þetta.

Forseti þarf að taka af dagskrá mál sem ágreiningur er um (Forseti hringir.) og virða sóttvarnalög.