150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir, hún kemur inn á ýmis mikilvæg atriði. Ég vil segja að ég átta mig á því að rafrænar þinglýsingar hafa tekið allt of langan tíma. Þær eru þó mun flóknari í framkvæmd en að setja inn ákveðin eyðublöð, sem eru líka í vinnslu, og auka við fjarfundabúnað. Ég hef ekki áhyggjur af því að þær leiðir sem við förum í þessu frumvarpi geti ekki tekið gildi og komist í gagnið strax. Það er mikil greiningarvinna í gangi og mikið að gerast í þinglýsingum núna og ég hef lagt allt kapp á að það gangi enn hraðar fyrir sig. Prófanir eru að hefjast á fyrsta áfanga núna þannig að ég held að þetta muni gerist hratt og ég muni sjá tímaramma fyrir þetta ár, hvenær við sjáum fyrst aflýsingar verða rafrænar og síðan þinglýsingar. Það er mjög mikilvæg þjónusta sem við ætlum að veita hjá sýslumönnum.

Hv. þingmaður nefnir einnig hjúskaparlögin. Þetta er eitthvað sem ég hef verið að skoða og búið er að setja hátt í 50 ný eyðublöð inn á island.is er varða fjölskyldusvið. Það er von okkar að það auðveldi og flýti fyrir málsmeðferð og hjálpi til við að stytta allt of langa biðlista sem eru í þeim málaflokki hjá sýslumanni. Við sjáum sífellt fleiri fara inn á island.is, í raun bætast eyðublöð við í hverri viku og ég bind miklar vonir við að þau muni hjálpa til við að flýta réttaráhrifum, stytta biðlista hjá sýslumanni og auka skilvirkni kerfisins. Ég þarf að kanna þetta hjúskapareyðublað sérstaklega um skilnað. En ég er auðvitað líka að skoða lög og ákvæði um skilnað og hvernig hægt er að gera það allt auðveldara í framkvæmd, sem kemur kannski ekki bara rafrænum sjónarmiðum við.