150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[12:23]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tefli hér einmitt fram hugmyndum sem á að ráðast strax í, eins og með Tækniþróunarsjóð. Tækniþróunarsjóður gat aðeins fjármagnað 28% af þeim tillögum sem fengu hæstu einkunn. Það er fullt af nýsköpunarverkefnum sem væri hægt að ráðast í sem uppfylla kríteríuna fyrstu einkunn en það sem vantar er fjármagn.

Annað er að við sjáum að það virðist vera vaxandi óánægja með þann kjarasamning sem gerður var við hjúkrunarfræðinga. Af hverju er ekki bara samið myndarlega við hjúkrunarfræðinga, ekki síst á þessum tíma? Það myndi fjölga störfum og bæta þjónustuna sem snertir okkur virkilega þessa dagana. Það er aðgerð sem er hægt að ráðast í strax. Við höfum teflt fram mörgum verklegum framkvæmdum sem ná til beggja kynja, grænar fjárfestingar, í öllum landshlutum sem þið hafið fellt en væri hægt að ráðast strax í. Tíminn er núna, frú forseti, til að gera miklu meira. Krísan er núna. Það þýðir ekki alltaf að vísa í næsta pakka og næsta pakka. (Forseti hringir.) Tillögurnar liggja fyrir, frú forseti. Og með fullri virðingu, hv. þingmaður, þið eruð ekki eins og þríeykið góða. (BjG: … nota sömu aðferðafræði, sagði ég.)