150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

frekari aðgerðir vegna Covid-19 faraldurs.

[13:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil segja strax að þau skref sem voru tekin með þessum pakka í dag voru rétt. Það er hægt að kalla hann paníkpakka en þetta voru tvímælalaust mikilvæg skref í rétta átt. Ég fagna því sérstaklega að ríkisstjórnin hafi tekið gagnrýninni sem var mikil eftir kynningu á síðasta pakka. Gagnrýnin var mjög mikil og ég fagna því sérstaklega að ríkisstjórnin hafi hlustað bæði á stjórnarandstöðuna og atvinnulífið hvað það varðar.

Auðvitað spyr maður samt enn og aftur: Af hverju eru ekki stóru skrefin tekin strax? Það eru sex vikur síðan hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri betra að taka stærri og meiri skref en minni. Ég er sammála því og við velflest í stjórnarandstöðunni höfum verið sammála í þeirri gagnrýni að skrefin hafi ekki verið tekin. Gott og vel, ég ætla ekki að gagnrýna ríkisstjórnina. Við verðum að hafa í huga að ríkisstjórnin tók að mínu mati rétta ákvörðun við að fylgja sóttvarnateyminu og loka landinu. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar urðu þó til þess að í rauninni var byrjað að loka ferðaþjónustunni. Þá þýðir ekki fyrir ríkisstjórnina, af því að þetta er hennar ákvörðun, að umgangast ferðaþjónustuna eins og það eigi að hjálpa henni upp úr þessum skafli af einhverri greiðasemi og yfir skaflinn. Það þýðir ekki að nálgast málið þannig. Þess vegna hvet ég ríkisstjórnina til þess að tala skýrar. Mér finnst með ólíkindum að eftir allan þennan tíma séu málin ekki einu sinni tilbúin. Blaðamannafundirnir eru alltaf tilbúnir en málin ekki. Mér finnst það mjög skrýtið.

Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðherra: Munum við í þessari viku og þeirri næstu fá fleiri skref? Hæstv. félagsmálaráðherra talaði um að í þessum pakka ættu húsnæðismálin að vera. (Forseti hringir.) Þau eru ekki í þeim pakka sem hann boðaði. Ég undirstrika fyrri spurningar til hæstv. ráðherra: Hversu marga pakka og hversu margar aðgerðir fáum við að heyra um á allra næstu dögum og vikum? Ég bið ríkisstjórnina að treina sér ekki málið fram í sumarlok.