150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna launa þingmanna og ráðherra.

731. mál
[18:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt, ef ekki allt, í ræðu hv. þingkonu og 1. flutningsmanns þessa frumvarps. Orðin samstaða, samkennd og forysta hljóta að koma sterk upp í hugann þegar rætt er um þetta mál. Ég átta mig á því að það þarf að vera til eitthvert kerfi utan um launakjör alþingismanna og ráðherra eins og annarra en ekki að það sé svo mikilvægt á þessum skrýtnu og erfiðu tímum að við getum leyft okkur að ganga algerlega á skjön við þjóðina. Og nú eru engir venjulegir tímar, herra forseti. Meira að segja hefur hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, sagt að við séum sennilega að upplifa stærsta efnahagshrun þjóðarinnar í 100 ár, hrun og kreppu sem mun vera langvarandi, því miður, og hafa áhrif á tekjur og öryggi mjög stórra hópa í samfélaginu. Þess vegna var það von mín að einhver samhljómur næðist á milli flokka um að fella út þessar hækkanir. Það er rétt sem kom fram áðan að um það var rætt ítrekað á fundum formanna stjórnmálaflokka. Þegar fyrst var haft orð á þessu fannst mér það í rauninni svo augljóst að það myndi varla taka því að nefna það, þetta yrði jafnvel samþykkt samhljóða strax. En það varð því miður ekki og engin samstaða varð um þetta. Þess vegna erum við í Samfylkingunni meðflutningsmenn á þessu frumvarpi Pírata og munum að sjálfsögðu greiða því atkvæði okkar.

Á þessum tímum þegar kallað er eftir samstöðu fólks og að allir leggi sitt af mörkum hljóta þingmenn og ráðherrar, sem taka mjög erfiðar ákvarðanir sem eru íþyngjandi fyrir heilu hópana, að ganga á undan með góðu fordæmi.