150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru margar áhugaverðar og góðar breytingar hérna. Það eru þó nokkur atriði sem þyrfti að skerpa dálítið á. Mér fannst mjög góð breyting í 8. gr. þar sem segir að eftir atvikum skuli gefa barni kost á að tjá sig við sáttameðferð í samræmi við aldur þess og þroska, dálítið í samræmi við barnasáttmálann. En það er ekki alveg nóg. Það er ekki nóg að leyfa barni að tjá sig heldur þarf einnig að hlusta á það. Þetta varðar t.d. ákveðna umboðsaðila fyrir börn og í fyrirspurnum mínum til ráðherra út af sáttameðferð og biðtíma sem þar er hef ég spurt hvort börn séu í rauninni í hálfgerðri yfirheyrslu, hvort verið sé að reyna að afla upplýsinga hjá þeim eða hvort bara sé verið að leita eftir sjónarmiðum þeirra. Börnin eru ekki með neinn gæslumann til að hafa eftirlit með því hvort verið sé að reyna að afla sönnunargagna eða ákveðinnar staðfestingar á atvikum með því að spyrja barnið leiðandi spurninga. Það kom berlega fram í svörum ráðherra að svo er ekki, en tvímælalaust þörf á.

Það er áhugavert að setja þetta í samhengi við mörg atriði sem varða málsmeðferðina í sáttameðferð foreldra og aðkomu barns þar að. Að flestu leyti eru þetta mjög jákvæð skref og tiltölulega varfærnisleg en þó mjög nytsamleg. Að lokum sýnist mér þetta vera dálítið í áttina að barnasáttmálanum, sérstaklega hvað varðar þriðju valfrjálsu bókunina í sáttmálanum þar sem aðkoma barns er mun tryggari og barninu eru gefnar víðtækari heimildir og mun skýrari. (Forseti hringir.) Af hverju tökum við þá ekki skrefið til fulls og að leyfum börnum að fara alla leið til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, þar sem Ísland er með fulltrúa, til að leita lausn mála sinna þar?