150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[17:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Mér vefst nú kannski tunga um tönn eftir ræður Miðflokksmanna hér á undan mér því að sennilega þyrfti nokkra klukkutíma til að fara vandlega ofan í þær. En það er þó gott að við erum öll sammála um að það þurfi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er þó einn snertiflötur, þótt hann sé kannski ekki víðar. Losun Íslands gæti í heild numið um 10 milljónum tonna á ári af koldíoxíði eða kolefnisígildum og helmingurinn af því er innan Parísarsamkomulagsins, u.þ.b. 5 milljónir tonna. 40% samdráttur þar eru 2–3 milljónir tonna fyrir 2030. Innan ETS-kerfisins er svo annað eins. Í báðum þeim tilvikum sem ég nefni hér er hægt að ná því marki. Orkufrekur iðnaður er vissulega þar innan. Hann er einhver helsti mengunarvaldur á Íslandi að þessu leyti ásamt með losun frá framræstu votlendi, illa förnu landi, auðnum og öðru slíku. Auðvitað þurfum við að ráðast í það að minnka losun frá orkufrekum iðnaði. Þetta ETS-kerfi hefur virkað. Það er hægt að láta það virka betur vissulega og til þess er þetta frumvarp. Þeir sem hafa andmælt því eða gert það tortryggilegt hafa engar tillögur komið fram með um hvernig eigi þá að minnka losun frá orkufrekum iðnaði.

Álverin þrjú á Íslandi geta gert það á tvo mismunandi vegu, þ.e. að þrýsta koltvísýringnum ofan í vatn og dæla því ofan í jörðina þannig að það falli út sem steind og svo eru mjög lofandi tækniframfarir hvað snertir kolaskautin í álverunum. Þetta til samans á tíu árum u.þ.b. getur dugað til þess að við náum okkar marki hvað álver snertir. Kísiljárnið á Grundartanga verður áfram eins og það er. Þar eru engin skaut eða tækniframfarir. Sú framleiðsluaðferð er eins og hún er og þar verður að nota niðurdælingu. Sama er að segja um hrákísil eða kísilmálminn eins og þetta er kallað, það er auðvitað rangnefni, þetta er auðvitað bara hrákísill sem verið er að framleiða á Bakka. Það verður að beita sömu aðferð þar. En hún er margreynd og hún dugar. Hún kostar ákveðið á hvert tonn en það er skattur sem þessi fyrirtæki verða að greiða fyrir að vera til. Svo getum við auðvitað beitt kolefnisjöfnun og hún er hafin með ýmsum hætti og öll þessi fyrirtæki, sem ég hef nefnt, líka álverin, geta auðvitað bætt þar um betur sjálf og lagt fé í kolefnisjöfnun.

Þegar kemur að fluginu er, eins og hæstv. ráðherra nefndi, kolefnisbinding sú aðferð sem dugar í bili áður en tækniframfarirnar gera okkur kleift að fljúga með öðrum hætti en að nota steinolíu á flugvélar. Menn ræða um rafhlöðuflugvélar af minni gerðinni. Það er rætt um lífrænt eldsneyti af ýmsum toga, bæði sem íblöndun eða sem hreint eldsneyti, lífrænt framleitt af ýmsum tegundum. Það er rætt um vetni. Ég ætla ekki að fara í saumana á því en á sama máta og með stóriðjuna ber okkur skylda til þess að styðja við það kerfi sem er við lýði því að það hefur enginn og allra síst hv. Miðflokksmenn bent á einhverja aðra leið í því. Þá er þá sagt.

Svo langar mig að fara örfáum orðum um það sem ég heyrði hér úr ræðustól áðan, eins konar umkvartanir um að baráttan í loftslagsmálum hafi kostnað í för með sér og hann sé of mikill og það séu kvaðir á fyrirtæki o.s.frv. Við erum með tvenns konar og gætum jafnvel verið með þrenns konar vanda hérna. Við gætum verið með einhverja aðra náttúruvá. Við þurfum að spila á alla þrjá hestana, það er ekkert annaðhvort/eða í þessu, það er bæði og. Það er líf eftir Covid-19 og sú vá sem felst í loftslagsvánni er öllu alvarlegri þegar til langs tíma er litið heldur en nokkurn tíma Covid-19 og fyrir miklu fleiri jarðarbúa. Það væri algjörlega kolrangt að halda sem svo að kostnaður við loftslagsbaráttuna sé helmingaður eða skorinn niður að stóru leyti meðan við erum að kljást við efnahagsaðgerðir og annað slíkt sem af Covid-veirunni hlýst. Þannig að það er ekki dellumál að hjóla í stærstu losun af mannavöldum á Íslandi sem er annars vegar stóriðjan og hins vegar gróðurfar, gróðurleysi eða framræstar mýrar. Það er hreint ekki dellumál. Það er móðgun við íslensku þjóðina að kalla það dellumál. Það er líka móðgun við íslensku þjóðina að líta svo á að þau tvö mál sem eru hér á dagskrá á eftir, sem eru samgöngumál, séu ekki Covid-mál í raun, bæði framkvæmdirnar sjálfar sem eru atvinnuskapandi o.s.frv., ég tala nú ekki um greiðari samgöngur. Það er auðvitað Covid-mál ef lengra er horft eða jafnvel nær. Þau tvö mál sem liggja núna fyrir, annars vegar höfuðborgarsáttmálinn, þ.e. Keldnalandið og það sem snýr að því, og svo aftur svokölluð PPP-verkefni eða samvinnuverkefni í samgöngum, eru bæði nauðsynleg svo hægt sé að ljúka við samgönguáætlun, skila nefndaráliti og koma samgönguáætlun til atkvæðagreiðslu. Það mætti jafnvel skilja það af hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að það ætti ekkert að gera í því, við eigum bara að vera að afgreiða Covid-mál. Svona málflutningur er dapurlegur. Veiran stöðvaði ekki atvinnulífið, veiran stöðvaði ekki mannlífið á Íslandi þannig að við verðum að hyggja að þingmálum sem snúa að því sem tekur við á næstu mánuðum og næsta ári. Það eru auðvitað allt þingmál ríkisstjórnarinnar. Þau eru ekki tortryggileg á nokkurn máta.

Svo langar mig svona í lokin, hæstv. forseti, að reyna á þolinmæði manna með því að minnast á vindmyllurnar sem hér bar á góma þar sem þessi ágæti hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór að tala um stálið sem í þær fer. Hann gleymdi reyndar steypunni sem fer í undirstöðurnar. Hann gleymdi líka því sérstaka plasti sem er notað í vindmyllur og sjaldgæfu málmunum sem fara í sumt af innvolsinu o.s.frv., vegna þess að hann hefur ekki hugmynd um hvað hann er að tala um, ekki minnstu hugmynd. Sannleikurinn er auðvitað sá að það er búið að reikna þetta mjög vandlega út, losun við framleiðslu á vindmyllum frá vöggu til grafar. Þetta eru svokallaðar „life cycle assessments“ á ensku eða lífsferilsgreiningar fyrir stórar og litlar vindmyllur. Síðan er það auðvitað mátað við notkunina í 10, 20 eða 30 ár. Allar niðurstöður sem er mark á takandi sýna að vindmyllur eru til bóta. Auðvitað losar framleiðsla þeirra þessar lofttegundir. Það gerir meira eða minna allt sem við erum að gera, en á móti kemur að þær skila plús á notkunartímanum, síðast en ekki síst vegna þess að þeim er fargað á þann máta að allt úr þeim er endurnýtt. Það gleymdi hv. þingmaður að nefna. Við framleiðum ál, vissulega. En við getum líka endurnýtt ál og við framleiðum plast og við getum endurheimt plast o.s.frv. og sjaldgæf jarðefni sem eru notuð svo sem líka. Það sem hér kom fram stenst ekki skoðun ef menn eru vísindunum tryggir.

Það sama gildir um að moka ofan í skurði, sem menn kalla gjarnan í háði, líkja því við það sem menn gerðu í gamla daga á Kleppi að moka ofan í skurð eða moka upp úr þeim. En aðalmálið er þetta: IPCC, alþjóðleg vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna, hefur lagt fram gögn sem eiga að sýna losun frá mismunandi gerðum gróðurlendis á mismunandi breiddargráðum og þær mælingar sem hafa verið gerðar hér á losun t.d. úr mýrum og svo framræstum, kemur ágætlega heim og saman við þau gögn. Þannig að það er útilokað að koma hingað upp í ræðustól og halda því fram að endurheimt votlendis sé eitthvert kukl eða fitl eða della. Það er það ekki.

Ég ætla að halda því fram að það sem hefur verið sagt hér um vindmyllur sé rangt. Það sem hefur verið sagt hér um endurheimt votlendis er rangt. Ég hef lokið máli mínu.