150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ætli ég byrji þá ekki líka á því að óska Samfylkingunni hjartanlega til hamingju með afmælið.

Á landinu öllu eru rúmlega 17.000 háskólastúdentar og þar af stunda um 13.000 nám við Háskóla Íslands. Í könnun sem Stúdentaráð Háskóla Íslands gerði á stöðu nemenda og horfum þeirra á sumarvinnu svöruðu 40% þeirra að þeir væru ekki komnir með sumarstarf þrátt fyrir að vera að leita. Það er athyglisvert að þessi könnun var gerð áður en ljóst var hversu alvarlegt ástandið var orðið. Stór hópur stúdenta segist eiga í erfiðleikum með að mæta útgjöldum sínum í sumar og óttast jafnvel að missa húsnæði sitt. Þessi staða veldur stúdentum og fjölskyldum þeirra skiljanlega mikilli óvissu og óþægindum. Sumarið hefur hingað til verið sá tími sem stúdentar nota til að afla sér tekna.

Ríkisstjórnin hefur stigið fram og sagst ætla að tryggja 3.000 störf hjá opinberum stofnunum hjá ríki og sveitarfélögum, auk þess að ætla að bjóða upp á sumarnám sem er vel en það mun hins vegar ekki duga til. Við í Viðreisn höfum viljað sjá þessa aðgerð um störf til handa stúdentum jafnframt ná til einkafyrirtækja svo þau geti ráðið til sín stúdenta tímabundið út þetta sumar til að mæta vanda sem verður augljóslega til staðar þetta sumarið.

Stúdentar eiga nefnilega heldur ekki rétt á atvinnuleysisbótum og krafa stúdentahreyfinganna um það hefur verið skýr og hún er skiljanleg, að námsmenn fái aðgang að atvinnuleysisbótum í sumar við aðstæður sem verða mörgum svo þungbærar. Ég veit að stúdentar hafa komið sjónarmiðum um atvinnuleysisbæturnar á framfæri við stjórnvöld og það eru vonbrigði að þetta sé ekki enn komið fram. Ég hvet ríkisstjórnina til að gera betur hvað varðar störf fyrir stúdenta og eftir atvikum atvinnuleysisbætur við þessar aðstæður.