150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[15:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég er kannski á svipuðum slóðum og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, ég er ánægð með að loks skuli eiga að setja heildstæða löggjöf um vernd uppljóstrara á Íslandi, mér finnst það mjög mikilvægt framfaraskref en ég er á sama stað þegar kemur að hugtakinu „í góðri trú“. Mér finnst mjög mikilvægt að „í góðri trú“ eigi einungis við um sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem viðkomandi uppljóstrari er að miðla vegna þess að um leið og það fer að snúast um eitthvað annað, um leið og það fer að snúast um þann hug sem liggur að baki uppljóstrunum erum við komin með vopn í hendi þeirra sem vilja ekki að upplýsingar komist í almannahendur.

Hvers vegna segi ég þetta? Hvers vegna er verið að árétta það að upplýsingar megi ekki hafa komið út vegna þess að uppljóstrarinn vildi einhvern veginn koma höggi á vinnuveitanda sinn?

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom aðeins inn á að við viljum að manneskjur séu góðar og að þess vegna viljum við að góður hugur liggi að baki uppljóstruninni. En það getur líka verið góður hugur að baki því að vilja koma höggi á vinnuveitanda sinn sem er eftir innri uppljóstrun ekki til í að hætta t.d. að menga grunnvatn eða að hætta að selja lífshættulegar vörur sem vinnuveitandinn veit að eru hættulegar. Hvers vegna skyldi eðlileg manneskja ekki vilja hefna sín á slíkum vinnuveitanda, vilja koma höggi á hann? Það er hægt að vera góð manneskja og vera í hefndarhug eða vilja koma höggi á atvinnuveitanda sem bregst ekki við eðlilegum ábendingum um lögbrot. Þess vegna finnst mér þessi skrýtna útúrdúrsskilgreining, um að ætlunin hafi ekki átt að vera að koma höggi á vinnuveitandann, ekki eiga heima hér og vera fullsiðapostulaleg. Ef við vitum af vondum starfsháttum og látum vita af þeim og það er ekkert gert til að breyta þeim, hver á hugur okkar til þessa vinnuveitanda að vera? Á hann að vera hlýr? Á hann að vera góður? Eigum við að vera að upplýsa um ólögmæta starfshætti vinnuveitanda okkar af hlýhug til þessa sama vinnuveitanda? Eða er það mögulega vegna þess að starfshættir vinnuveitandans sem við upplýsum um ólögmæta starfsemi hafa gengið gjörsamlega fram af okkur? Ég vildi bara koma því að að fólk sem vill koma höggi á vinnuveitanda sinn þarf ekki endilega að vera að gera það af illum hug og getur vel verið að gera það fyrir hagsmuni almennings.

Mér finnst það eina sem skiptir máli vera hvort upplýsingarnar eigi rétt á sér, hvort þær eigi rétt á sér í uppljóstrun og að málið eigi ekki að snúast um hvaða hugur liggi að baki hjá fólki enda er það alltaf matskennt og þar með algjört happdrætti hvort hugur viðkomandi sé metinn góður eða trú viðkomandi sé metin góð eða ekki. Þetta finnst mér varasamt við þetta frumvarp.

Sömuleiðis finnast mér vonbrigði að ekki hafi verið tekið meira tillit til tilskipunar Evrópusambandsins og ráðsins vegna þess að sú löggjöf mun koma hingað og það er töluverður skilgreiningarmunur á t.d. innri og ytri uppljóstrun á milli tilskipunarinnar og þessarar löggjafar. Það verður leiðinlegt að þurfa að brjóta upp þær skilgreiningar sem núna eru leiddar í lög í aðrar skilgreiningar þegar tilskipunin kemur hingað, sem hún mun gera og mun taka gildi. Ég vildi bara koma því að að það getur alveg verið góður hugur á bak við það að vilja koma höggi á vinnuveitanda sinn.