150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Síðastliðið haust gerðu íslenska ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu með sér samkomulag um skipulag og fjármögnun á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til næstu 15 ára. Í þessum sáttmála kemur fram að ríki og sveitarfélögin munu stofna með sér sameiginlegt félag sem heldur utan um tímamótauppbyggingu innviða í borginni og nágrenni hennar. Stofnun félagsins, sem unnið hefur verið að í nánu samstarfi við sveitarfélögin, tengist einnig efnahagsaðgerðum stjórnvalda um að stuðla að aukinni fjárfestingu. Við núverandi efnahagsaðstæður er mikilvægt að viðhalda fjárfestingarstigi hins opinbera og stuðla að því að flýta framkvæmdum. Því er nauðsynlegt að koma sem fyrst á fót opinberu hlutafélagi til að halda utan um þá umfangsmiklu uppbyggingu sem fyrirhuguð er hér á höfuðborgarsvæðinu.

Verkefni félagsins verður að halda utan um fjárfestingu í samgönguinnviðum til næstu 15 ára sem þegar er búið að fjármagna að hluta. Gert er ráð fyrir að félagið muni í samstarfi við Vegagerðina og einstök sveitarfélög standa fyrir framkvæmdum vegna borgarlínu á stofnvegum og hjóla- og göngustígum. Þá er einnig gert ráð fyrir framkvæmdum vegna betri umferðarstýringar og öðrum öryggisaðgerðum til að tryggja aukið umferðarflæði. Það fellur því innan hlutverks félagsins að ráðast í arðbæra innviðauppbyggingu sem mun örva efnahagslífið og atvinnusköpun sem skiptir sköpum um þessar mundir. Þegar félaginu hefur verið komið á fót skapast einnig tækifæri til að flýta framkvæmdum enn frekar, sé það talið hagkvæmt út frá forsendum verkefnisins í heild og efnahagsaðstæðum að öðru leyti.

Í frumvarpinu er kveðið nánar á um tilgang og markmið félagsins sem endurspegla jafnframt þau markmið sem sett eru fram í samgöngusáttmálanum. Þá kemur fram hvert er hlutverk og verkefni félagsins sem snýr að utanumhaldi og uppbyggingu samgönguinnviða sem áætlað er að nái a.m.k. til ársins 2033. Þá er í frumvarpinu einnig að finna ákvæði um hlutafé, stjórn, heimildir til lántöku og slit félagsins ásamt ákvæðum um heimildir félagsins til samningsgerðar.

Það er áætlað að heildarkostnaður við framkvæmdir sem félaginu verði falið að annast verði í kringum 120 milljarðar kr. Gengið hefur verið út frá því að ríkissjóður tryggi verkefninu 45 milljarða kr. með beinum framlögum, annars vegar 15 milljörðum með þróun og sölu á landi og hins vegar 30 milljörðum í gegnum samgönguáætlun. Bein framlög sveitarfélaganna eru samtals 15 milljarðar yfir tímabilið og dreifist það á sveitarfélögin í samræmi við hlutfallslegan íbúafjölda þeirra. Varðandi mismuninn, þann helming sem þá vantar upp á, er því haldið opnu í þessu samkomulagi með hvaða hætti það skuli fjármagnað en nefndir valkostir í því efni, sérstaklega flýti- og umferðargjöld, en aðrir fjármögnunarkostir þó skoðaðir samhliða orkuskiptum. En nú liggur fyrir að stjórnvöld eru í heildarendurskoðun á þeim skattstofnum sem við höfum lengi treyst á til uppbyggingar á samgöngumannvirkjum í landinu, nefnilega eldsneyti og ökutæki. Það kunna að liggja tækifæri til að breyta fjármögnun samgöngumannvirkja samhliða þeirri breytingu sem er að verða þar og tengist orkuskiptum.

Fleira getur hér einnig komið til. Þannig vorum við t.d. fyrr á þessu ári, áður en Covid-19 faraldurinn braust út hér á landi með mjög neikvæðum efnahagslegum áhrifum, með það á teikniborðinu að leggja drög að sölu eigna ríkisins, sérstaklega Íslandsbanka. Til greina hefði komið á komandi árum, ef þau áform hefðu gengið eftir, að verja hluta af söluandvirði bankans til þess að fjármagna það verkefni sem hér um ræðir. Augljóslega hefði með því verið dregið mjög úr þörfinni fyrir flýti- og umferðargjöld. Önnur sérstök framlög geta að sjálfsögðu einnig komið til greina á líftíma félagsins og ótímabært að úttala sig um það hvað þar gæti átt við, þ.e. hvaða einstöku eignir gætu þar komið við sögu.

Þess ber að geta hér undir lok ræðu minnar að það er erfitt að horfa fram hjá því að efnahagslegar aðstæður allar hafa mjög versnað frá því að þetta samkomulag var gert. En engu að síður, eins og ég hef hér rakið, er mikilvægt að við leitum allra leiða til að keyra af stað þær framkvæmdir sem við trúum að muni auka arðsemi og styrkja innviði í landinu og fjallað er um í þessu samkomulagi. Augljóslega hefur faraldurinn sem nú ríður yfir ekki eingöngu haft neikvæð áhrif á ríkisfjármálin heldur ekki síður á fjármál sveitarfélaganna. Þess er skemmst að minnast að sveitarfélögin hafa nýlega farið fram á tugmilljarða stuðning frá ríkinu við sveitarstjórnarstigið, fjárhæð sem fer fram úr því sem í heild sinni var rætt um í þessu tiltekna samkomulagi. Svo mjög hafa aðstæður breyst á einungis örfáum mánuðum.

En ég tel, virðulegi forseti, mikilvægt að við tökum þetta frumvarp til umræðu og fylgjum eftir þeim áformum sem birtust í samkomulagi ríkisstjórnar og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins um að stórbæta samgönguinnviði á svæðinu með öllum þeim jákvæðu áhrifum fyrir framleiðni, umhverfið og lífsgæði á höfuðborgarsvæðinu sem því fylgja. En í millitíðinni hafa til viðbótar bæst við þau rök fyrir málinu að fjárfesting í innviðum getur verið eitt mikilvægasta framlag okkar til að brjóta þá keðjuverkun neikvæðra áhrifa sem leiðir af útbreiðslu kórónuveirunnar, þessa faraldurs. Í augnablikinu gengur það ágætlega. Það er ekki auðvelt að spá nákvæmlega fyrir um það hvernig næstu mánuðir munu líða, en hér erum við með í höndunum langtímamál sem skiptir miklu að komist til umræðu í þinginu og að við höldum áfram samtalinu um það.

Ég hef þá lokið ræðu minni, virðulegi forseti, og legg til að málinu verði vísað til hv. fjárlaganefndar að lokinni umræðunni og svo til 2. umr.