150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á samning sem hann kallar framkvæmdastopp og þá er líka mjög mikilvægt að halda til haga að sá samningur gekk ekki út á framkvæmdastopp. Sá samningur gekk út á nokkrar stórar framkvæmdir sem var sagt að yrði ekki farið í næstu tíu árin. En það þýddi ekki að ekki ætti að fara í neinar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin hafa haldið þessu til haga, þess vegna finnst mér mikilvægt að koma þessu á framfæri hér, til hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar, að það er hluti af framkvæmdum sem sveitarfélögin stóðu alltaf í þeirri meiningu að farið yrði í en ekki hefur verið farið í þannig að þar hefur ríkið ekki staðið við sinn hluta.

Farþegum í Strætó fjölgaði um 2,7 milljónir á árunum 2011–2018. Ég hefði viljað sjá á þessu tímabili, eins og markmiðin voru sett, að hlutfall ferða væri komið upp í 8% en því miður erum við ekki komin í þá tölu, því miður. Þannig að vandamál okkar núna snýst um það að ef t.d. Miðflokkurinn, eins og hann hefur talað núna, hefur ekki trú á þessu verkefni, á hverju hefur hann þá trú? Hvernig eigum við að leysa umferðarstöppuna sem er á höfuðborgarsvæðinu? Eins og fram kom í máli mínu hér áðan, þegar ég fór í andsvör við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þá eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu búin að liggja yfir þessu verkefni með öllum helstu sérfræðingum. Það er búið að horfa til allra borgarsamfélaga í kringum okkur sem við viljum gjarnan miða okkur við. Þetta er í mínum huga besta lausnin. Þetta er blönduð lausn þar sem við tryggjum frelsi einstaklinganna til að velja hvaða samgöngumáta þeir vilja nýta. Einkabíllinn er enn til staðar og á að geta keyrt á milli sveitarfélaganna. Borgarlína verður það líka. Strætó verður innan hverfa og hér getur fólk hjólað og gengið eða nýtt sér aðra samgöngumöguleika og það held ég að sé mikilvægt. Mér finnst mikilvægt að hv. þingmaður haldi þessu til haga og ég efast ekki um að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fái fulltrúa sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á sinn fund þegar fjallað verður um þetta verkefni. Nei, virðulegur forseti, þetta verkefni fer ekkert inn í þá nefnd. (Gripið fram í: Nei, nei.) Það fer inn í fjárlaganefnd. Ég hvet aftur á móti hv. þingmann til að (Gripið fram í.) lesa og hlusta á það (Forseti hringir.) sem sveitarfélögin (Forseti hringir.) á höfuðborgarsvæðinu hafa haft fram að færa í þessum efnum því ég held að það sé mikilvægt fyrir formanninn að hafa það á hreinu.