150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Stundum þarf líka að slá á örlítið léttari strengi þegar við höfum búið við erfitt ástand eins og búið er að fylgja okkur núna meiri partinn af þessu ári. Eitt af því sem hefur fylgt Covid-faraldrinum hérlendis og samkomubanni honum tengdum er að umferð hefur snarminnkað um allt land. Þegar samkomubann var rýmkað jókst umferðin samhliða því. Það sjáum við dag frá degi.

Á sama tíma berast þær gleðifréttir að reiðhjól séu nánast uppseld í landinu. Ekki bara hér á landi heldur líka víða erlendis hefur orðið sprenging í sölu reiðhjóla. Líklega hefur sjaldan verið mikilvægara að huga að líkamlegri og andlegri heilsu á sama tíma og líkamsræktarstöðvar og sundlaugar eru lokaðar af heilsufarsástæðum, ótrúlegt en satt. Heilbrigðisráðherra og umhverfisráðherra ásamt fleirum hófu átakið Hjólum í vinnuna í morgun. Þetta er í átjánda sinn sem það átak fer fram og Alþingi tekur þátt í því eins og undanfarin ár. Hvet ég þingmenn og alla þá sem hér eru til að nýta þetta tækifæri og taka þátt.

Á stórhöfuðborgarsvæðinu eru margir fyrirtakshjólastígar og vil ég segja í því samhengi að nauðsynlegt er að huga að hjólastígum í kringum allar gatnagerðarframkvæmdir í þéttbýli sérstaklega og reyndar þarf að huga að þeim líka víða annars staðar, enda partur af breyttu lífsmynstri fólks og hluti af því að búa til loftslagsvænna samfélag. Allir geta tekið þátt því að reglurnar í Hjólað í vinnuna miðast að sjálfsögðu við það ástand sem við búum við nú og þrátt fyrir heitið er fólk sem á ekki reiðhjól hvatt til að ganga í vinnuna ef það hefur tök á.

Kæru vinnufélagar og landsmenn. Við höfum búið við einstök gæði á Íslandi. Við höfum ekki verið í útilokun frá því að nýta okkur okkar fagra og góða umhverfi. Nú þegar við finnum ilm að vori og veður nokkuð skaplegt er kjörið ráð að nýta átakið til að lyfta upp líkama og sál, sérstaklega þar sem margur Íslendingurinn er að snúa aftur til vinnu eftir margra vikna (Forseti hringir.) fjarvinnu og setu við tölvuna.