150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

716. mál
[21:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. En aðeins áfram um þessa sömu grein. Hér kemur fram, eins og ég greindi frá áðan, að ráðherra skilgreini hlutverk og valdsvið sendiherra samkvæmt þessari málsgrein í erindisbréfi. Ég velti markmiðinu á bak við þetta fyrir mér: Er t.d. verið að hugsa um að skipa sendiherra í einhverju ríki en að ráðherra geti einhvern veginn afmarkað það sem sendiherrar gera almennt gagnvart þessu með erindisbréfi? Þá meina ég að venjulega sinna sendiherrar vissum störfum og það er skilgreint á einhvern hátt. En með þessum hætti getur ráðherra kannski afmarkað það frekar við nákvæm verkefni og ég velti fyrir mér hver hugsunin er á bak við þetta. Er þessu ákvæði ætlað að eiga við um þá sem eru skipaðir tímabundið sem venjulegir sendiherrar einhvers staðar, t.d. í Washington? Gæti sá hinn sami samt fengið erindisbréf frá ráðherra þar sem honum yrðu mögulega settar þrengri skorður til athafna en sendiherrum eru alla jafna settar? Hvert er markmiðið á bak við það að hafa klausuna þarna inni um þessa skilgreiningu og afmörkun? Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þetta ákvæði nýtist utan hefðbundinna sendiherrastarfa? Hér er talað um sérstakan erindreka. Fyrir hvaða hlutverk er þetta hugsað?