150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[20:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Frú forseti. Á fordæmalausum tímum erum við að skrifa söguna. Það liggur eiginlega í hlutarins eðli. Fordæmalausir tímar þýða að fordæmi eru ekki fyrir hendi. Handritið er ekki fyrir hendi. Við þurfum sjálf að skrifa handritið dag frá degi. Það endurspegla m.a. aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar sem komið hafa til þingsins á síðustu mánuðum. Þar er brugðist við stöðu sem enginn bjóst við. Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi í ræðu fyrr í dag eru allir að gera sitt besta en vita kannski ekki nákvæmlega hvað á að gera vegna þess að handritið er ekki til.

Ég nefndi við 1. umr. þessa máls að það hefði komið mér á óvart hvernig þróun heildarumfangs fjáraukalaga hefði verið frá aðgerðapakka eitt yfir í aðgerðapakka tvö, sem við ræðum í dag. Á meðan fjáraukalög eitt hljóðuðu upp á 25,6 milljarða erum við í dag að ræða fjáraukalög upp á 13,2 milljarða, sem slagar rétt upp í helming af því sem gert var í fyrri hluta aðgerðahrinunnar sem er í gangi núna, jafnvel þótt við tökum til þann hálfa milljarð sem fjárlaganefnd leggur til að bætt verði við. Mér finnast góðar sögur eiga að hafa aðra stígandi. Þetta er ekki tröppugangurinn sem ég tengi vel skrifuðu handriti, en fyrir vikið fáum við væntanlega fleiri fjáraukalög þegar heildarmyndin verður enn skýrari.

Annað sem ég ræddi við 1. umr., sem mér finnst farið að verða enn ljósara þegar þetta mál er komið til endanlegrar afgreiðslu, er hvað við búum oft illa að getu til að greina aðstæður, til að viða að okkur gögnum, upplýsingum, tölum, öllum þeim nauðsynlega hrávið sem góð stefnumörkun þarf að vera búin til úr. Í frumvarpinu er það augljósast varðandi mat á áhrifum frumvarpsins á stöðu kynjanna. Slíkt mat var lagt á félagslegu aðgerðirnar sem eru í fjáraukalagafrumvarpinu sem eru, svo að það sé sagt, mjög jákvætt framtak, mjög góður hluti af þessu frumvarpi. Það hefur varla komið neinum á óvart að þær aðgerðir komi vel út úr mati á kynjaáhrifum. Þess þá heldur hefði kannski þurft að meta allt frumvarpið vegna þess að mig grunar að sá hluti tillagnanna sem komið hefði verr út í slíku mati sé akkúrat sá hluti sem ekki var greindur.

Það er vegna svona smáatriða sem maður fær sömu tilfinningu og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson lýsti og kallaði fálmkenndar aðgerðir — kannski er hægt að finna einhverja vinalegri leið til að orða það. Hér er heyja viðað víða, hér er safnað saman. Teknar eru þær hugmyndir sem er auðvelt að færa fram í tíma sem hefðu kannski hvort eð er orðið að veruleika á næstu árum, og þeim pakkað saman í aðgerðapakka og hrint í framkvæmd fyrr en ella. Auk þess er farið í gamlar verkfærakistur og eldri hugmyndir endurnýttar, stundum með góðum árangri og stundum ögn síðri. Í aðgerðapakka eitt samþykktum við að endurlífga Allir vinna verkefnið, sem ég er ekki viss um að hafi legið nægjanlega miklar greiningar fyrir á, til að sýna fram á að það ætti endilega jafn mikið erindi í dag og eftir bankahrunið. Þá er hlutabótaleiðin endurvinnsla frá sama tíma. Ég held að þegar hún var sett af stað fyrr á árinu hafi hún kannski lofað meiru en nú þegar kemur í ljós að það bil sem hún þarf að brúa er töluvert lengra en henni var ætlað að standa undir.

Svo eru ýmis minni atriði í þessu frumvarpi, eins og að bjóða upp á sumarnámskeið fyrir framhaldsskólanema og háskólanema, svo að fólk geti haldið áfram að mennta sig í sumarfríinu og haldið sér í virkni ef það er ekki í vinnu. En mér finnst það hróplegt hversu mjög vantar greiningar, hversu mjög vantar að hlusta á ákall þeirra hagsmunaaðila sem aðgerðin beinist að. Það má t.d. spyrja sig hvort sumarnámskeiðin eftir hrun hafi í raun gefist eins vel og vonast var til, hvert útskriftarhlutfall þeirra sem sóttu þau hafi verið, t.d. hefði mátt athuga hvort stúdentar hefðu verið að kalla eftir þessu. Það hefði svo sem ekki þurft að athuga það vegna þess að stúdentar voru ekkert að kalla eftir þessu. Það sem stúdentar voru að kalla eftir var að fjárhagslegt öryggi þeirra væri tryggt yfir sumarmánuðina. Að leggja 800 milljónir í sumarnámskeið þjónar fræðslu en það þjónar ekki tilgangi varðandi framfærslu fólks. Stúdentar eru með einfaldri hópum til að ná utan um af þeim sem við getum litið til. Þetta er stór hópur með mjög þekkta árstíðasveiflu. Það er vitað að um þetta leyti árs losnar fólk úr námi og fer af fullum krafti út á vinnumarkaðinn í þrjá mánuði og svo aftur í skóla og fer ekki af vinnumarkaði vegna þess að allar greiningar á íslenskum stúdentum sýna að þeir vinna meira en kollegar þeirra í Evrópu. Yfirgnæfandi meiri hluta stúdenta vinnur með námi á meðan fólk í sömu stöðu í öðrum löndum getur oftar einbeitt sér að náminu einu saman. Íslenskir stúdentar stóla algerlega á þennan árstíðarytma til að tryggja sér örugga framfærslu. Það skiptir þá jafnvel enn meira máli en erlenda kollega þeirra vegna þess að íslenskir stúdentar eru yfirleitt eldri en evrópskir stúdentar að meðaltali og líklegri til að bera ábyrgð á fjölskyldu og heimili, reka heimili. Þannig að þörf þeirra á fjárhagslegu öryggi er mjög mikil. Grundvallarspurningin, þegar kemur að þessum hópi, hefði náttúrlega átt að vera: Hvernig tryggjum við honum framfærslu?

Til þess eru jú tvær ágætar leiðir í frumvarpinu sem við ræðum í dag; annars vegar að skapa um 3.000 sumarstörf í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og hins vegar að veita 300 millj. kr. í Nýsköpunarsjóð námsmanna til að skapa störf þar. En ef við reiknum okkur upp úr þeim tölum sem fram koma í könnun ýmissa stúdentasamtaka, Stúdentaráðs Háskóla Íslands og annarra, mætti áætla að um helmingur íslenskra stúdenta reiknaði með að vera án vinnu í sumar. Um helmingur þýðir að ef þau störf verða til sem lagt er til að verði til með þessu frumvarpi þá náum við kannski utan um helming af þeim hópi sem ná þarf til. Það er miður að enn sé ekki búið að ná lendingu í því að stúdentum verði gert kleift að sækja sér atvinnuleysisbætur ef ekkert annað býðst til þess að fólk hafi það öryggisnet sem felst í því að eiga trygga framfærslu. Ef frumvarpið væri greint ofan í kjölinn myndi væntanlega koma í ljós að sá hópur sem þetta snerti mest, sá hópur sem færi hvað verst út úr því að vera atvinnulaus og án framfærslu allt sumarið, þyrfti að þreyja þorrann næstu lánshæfu mánuðina, væri einmitt fólkið sem taka þarf utan um, fólkið sem er með veikt félagslegt net, fólkið sem kemur kannski frá heimilum þar sem það hefur ekki mikið á milli handanna, fólk sem er að reyna að mennta sig til að veita sér betri framtíð en foreldrar þess gátu leyft sér. Það er fólkið sem við eigum að styðja. Þess vegna vona ég að þótt tillaga um atvinnuleysisbætur til handa þessum hópi hafi verið felld hér fyrr í dag komi hún aftur hingað í sal, eins og margar góðar hugmyndir stjórnarandstöðunnar, örlítið seinna sem næsti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að víkja nokkrum orðum að nýsköpun sem talsvert er fjallað um í frumvarpinu og lýsa sérstakri ánægju með að fjárlaganefnd hafi gefið þeim umsögnum gaum þar sem bent var á nauðsyn þess að gæta að grunnrannsóknum, vegna þess að þær gleymast oft. Rannsóknir eru allt of oft hugsaðar á forsendum atvinnulífsins og hagnýtingarmöguleika en nýsköpun fyrirtækja á sér ekki stað í landi nema grunnrannsóknum sé sinnt, vegna þess að nýsköpunarfyrirtæki spretta upp í löndum þar sem aðgengi að menntun er gott og þar sem fjárhagur fólks er ekki hindrun fyrir því að það geti sótt sér menntun, þar sem félagslegar stoðir eru sterkar. Að einhver ákveði að opna hér nýsköpunarfyrirtæki og laði til landsins erlenda starfsmenn byggist líka á því að hér séu greiðar almenningssamgöngur, góðir leikskólar, stutt í náttúru. Allt það sem gerir lífið gott er það sem fólk vill meðfram því að vinna spennandi vinnu. Nefndin leggur til 200 milljóna viðbót í Rannsóknasjóð sem mun aldeilis muna um á tímum þegar þarf að hafna nánast fullkomnum umsóknum í þann sjóð.

Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson leggur til 600 milljónir og ég held að við verðum ekki farin að styrkja neitt síðri umsóknir þó að sjóðurinn myndi stækka það mikið. Ég held að það sé umræða sem við þurfum að taka með okkur inn í haustið, í fjárlagavinnuna, með það fyrir augum að stækka Rannsóknasjóð varanlega þannig að hann tvöfaldist að umfangi frá því sem nú er.

Svo vil ég lýsa ánægju með að fjárlaganefnd minni stjórnsýsluna á aðildarumsókn að Geimvísindastofnun Evrópu, sem gengið hefur óþarflega hægt að ganga frá innan stjórnsýslunnar, en er einmitt svo gott dæmi um litla og einfalda breytingu sem getur munað verulega um. Ef við fáum aðild að Geimvísindastofnuninni opnast nefnilega möguleikar fyrir fólk í háskólasamfélaginu og í nýsköpunarfyrirtækjum til að sækja sér samstarfsaðila og styrki að utan og getur það hlaupið á háum upphæðum.

Ef við skoðum hliðstæðu sem við þekkjum ágætlega og oft er rædd þá hefur Veðurstofunni gengið vonum framar að fjármagna rannsóknir með erlendu styrkjafé, svo vel að á fjárlögum þessa árs er heildarumfang reksturs Veðurstofunnar 2,5 milljarðar, en kemur ekki nema 1,1 í beinum ríkisframlögum. Megnið af því sem upp á vantar kemur í gegnum rannsóknarsamstarf sem fjármagnað er með styrkjum.

Að lokum get ég ekki látið hjá líða að nefna fréttir dagsins af fyrirtækjum sem misnota neyðarráðstafanir sem fjármagnaðar eru úr sameiginlegum sjóðum, fyrirtæki sem greiða eigendum sínum arð á sama tíma og þau nýta sér hlutabótaleiðina, sem sett er upp til þess að hjálpa fyrirtækjum sem annars myndu varla lifa af. Það er ótrúlegt dómgreindarleysi og ég vona að fyrirtæki vilji ekki að þetta verði þeirra kafli í sögunni sem verið er að skrifa.

En þetta fékk mig til að hugsa um þann mismun sem birtist stundum í lagasetningu hjá okkur þegar að því kemur hvernig við tökum á brotum á þeim reglum sem hér eru settar. Þar þótti mér nærtækast að líta á frumvarp um lokunarstyrki, sem er hluti af þessum aðgerðapakka, um fjárstuðning til minni rekstraraðila. Þar erum við að tala um hárgreiðslustofur og nuddstofur og sjúkraþjálfara sem fá að hámarki 2,4 milljóna styrk vegna þess að þau hafa þurft að loka vegna lagafyrirmæla. Þetta eru ekki háar upphæðir fyrir ríkið, en lítil fyrirtæki munar um þetta. Ef rekstraraðili veitir hins vegar rangar eða ófullnægjandi upplýsingar þannig að það hafi haft áhrif á þann styrk sem viðkomandi fékk skal skatturinn gera honum að greiða 50% álag á kröfu um endurgreiðslu. Þarna erum við með dálítið skýrt og hart úrræði. Reyndar, ef við förum aftar í þetta frumvarp, erum við með grein um viðurlög þar sem einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögunum getur þurft að sæta fangelsi allt að tveimur árum. Þessi refsirammi er síðan nokkuð harður miðað við að fyrir nokkrum vikum samþykktum við lög um hlutabætur sem fyrirtæki virðast því miður geta misnotað í þágu fjármagnseigenda án þess að nokkur refsing komi til. Ég held að það sé nokkuð sem við þurfum að hugsa vel og vandlega og spyrja okkur, alltaf þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðunum af þessu tagi, hvort þær uppfylli það að við séum í alvöru öll saman í þessu.