150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[21:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á því hvernig laun alþingismanna taka breytingum eru að mínu mati alveg gríðarlega mikilvægar. Alþingismenn eru núna ekki leiðandi í því hvernig launin þeirra breytast heldur fylgja í kjölfar þess sem gerist á hinum opinbera markaði. Ég held að þetta sé eitthvað sem eigi eftir að koma í ljós til framtíðar að sé hið mesta gæfuspor og ég held að flestir séu sammála um að það sé rétta leiðin þó svo að það sé talað um það akkúrat þegar hækkunin kemur til þingmanna. En það er önnur saga og allt í lagi með það.

Hv. þingmaður talaði hér um skilyrðislausa grunnframfærslu, það sem hann telur vera kostina við þá leið. Ég verð að segja að ég tel hana einmitt alls ekki til þess fallna að auka jöfnuð í samfélaginu og alls ekki til þess fallna að bæta kjör til að mynda öryrkja því að með þeirri leið fá allir sama grunninn hvað annað sem þeir hafa til viðbótar við það. Að sumu leyti er verið að setja þá peninga til þeirra sem þurfa ekkert á þeim að halda, kannski ekki ósvipað og hlutabótaleiðin endaði m.a. hjá fyrirtækjum sem voru að greiða sér arð. Þetta held ég að verði til þess að svo mikið af peningum fari einmitt til þeirra sem þurfa ekki á því að halda og þá er ekki hægt að gera þær breytingar sem eru nauðsynlegar á almannatryggingakerfinu, þær breytingar sem er einmitt svo nauðsynlegt að gera til að bæta kjör þeirra sem hafa engin önnur tækifæri til að bæta kjör sín.