150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að tala um stétt lögreglumanna og -kvenna. Lögreglumenn hafa verið samningslausir í meira en eitt ár. Þetta er stéttin sem stóð í eldlínunni eftir efnahagshrunið 2008, eins og frægt varð, og náði með fádæmarólyndi og framgöngu að koma í veg fyrir að hér færi allt á annan endann.

Þetta er stéttin sem hefur einnig staðið í eldlínunni að undanförnu í baráttunni við veiruna ásamt fleiri mikilvægum stéttum. Þetta er stéttin sem kemur þegar við köllum, þetta er stéttin sem við viljum ekki vera án þegar vandi steðjar að. Þetta er stéttin sem við reiðum okkur á þegar öll sund virðast lokuð. Þetta er stéttin sem hefur verið samningslaus í á annað ár. Þetta er stéttin sem hefur ekki verkfallsrétt.

Kannski er það þess vegna, herra forseti, sem lögreglumenn fá hvorki úrbætur á kjörum sínum né yfir höfuð athygli viðsemjenda sinna. Þetta er stéttin sem tekst stöðugt á við flóknari og erfiðari verkefni á sama tíma og starfandi lögreglumönnum hefur fremur fækkað en fjölgað þrátt fyrir fjölgun íbúa og ferðamanna og verkefna. Fjöldi þeirra hefur verið langt undir öllum viðmiðum um áratugaskeið. Þetta er stétt sem býr við þær starfsaðstæður að vera oftast fyrst á vettvang og veit í raun aldrei hvað mun mæta henni. Víða úti á landi er einn lögreglumaður á störfum á stóru svæði og langt í aðstoð. Á sama tíma og varað hefur verið við stóraukinni hættu á vaxandi skipulegri glæpastarfsemi með alþjóðleg tengsl stendur þessi stétt uppi kjarasamningslaus. Ég lagði fram frumvarp í haust sem kveður á um að lögreglumenn endurheimti verkfallsrétt sinn.

Herra forseti. Það er löngu kominn tími til að ganga til samninga við lögreglumenn.