150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil bara í ljósi andsvara við hv. þm. Sigríði Á. Andersen koma því að, eins og við nefndum áðan, að tveir af þessum fimm dómurum sem auglýst er eftir og koma að utan heyra undir III. kafla laga um dómstóla, um skipun dómara, því að fara þarf í ferli hæfnisnefndar og sem þarf að starfa á ákveðnum forsendum. Það segir í lögunum, með leyfi forseta:

„Dómnefnd lætur ráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti dómara. Í umsögn dómnefndar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið en heimilt er að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna. Að öðru leyti setur ráðherra nánari reglur um störf nefndarinnar.“

Ráðherra getur haft víðtæk áhrif á það hvernig þetta er gert. Ég vildi bara að það kæmi hérna skýrt fram, en þá þarf líka að gera það fyrir fram, ekki er hægt grípa inn í mitt ferlið eða það er ekki gott. Við skulum segja að það sé ekki til þess að fólk fái traust á kerfinu ef farið er af stað með eitt ferli um það hvernig skuli skipa dómara og svo er reglunum eða hæfniskröfunum breytt eftir á um það hvernig þeir skuli skipaðir. Þá verður tilhugsunin sú að þá sé ráðherra að beita eigin geðþótta í því, af því að hann er ekki ánægður með það hvað kom út úr þessu og þá sé reglunum breytt eftir á. Það er almennt séð ekki góð regla ef menn vilja halda trú á því fyrirkomulagi sem gert er. En hér segir að ráðherra geti að öðru leyti sett nánari reglur um störf nefndarinnar. En það er hægt ef menn gera það fyrir fram.