150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[19:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræddum þetta mál í dag og þá breytingartillögu sem hér er lögð fram af meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar þar sem inntak hugtaksins „góð trú“ er gert enn skýrara. Þetta er viðtekið í íslenskum rétti og rótgróið í gildandi ákvæðum um uppljóstraravernd á Íslandi og við teljum það því ekki valda neinum vafa í dómaframkvæmd.

Þetta frumvarp um vernd uppljóstrara felur aðallega í sér að þeir beri ekki refsi- eða skaðabótaábyrgð vegna miðlunar upplýsinga, sem og vernd gegn óréttlátri meðferð vinnuveitanda. Einstaklingar sem aðstoða við uppljóstrun eða veita upplýsingar til stuðnings uppljóstrun geta notið verndar samkvæmt þessum ákvæðum frumvarpsins, að öðrum skilyrðum uppfylltum, séu þeir þátttakendur í að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum.