150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er svo skemmtileg umræða og kveikir hjá manni alls konar tilfinningar. En það er stundum gott, einmitt þegar maður finnur að tilfinningarnar eru að hlaupa með mann í gönur, að skoða gögn og það sem hefur verið sagt og ritað. Hv. þingmaður, sem þykir mjög vænt um SÁÁ og það góða starf sem þar fer fram, spurði í ræðu sinni af hverju við værum ekki að efla SÁÁ og efla meðferðarstarf. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að ég er alveg sammála honum, hvers vegna hann greiddi atkvæði gegn stuðningi við SÁÁ í atkvæðagreiðslu í síðustu viku. Minni hluti á Alþingi kom með tillögu um að setja 100 milljónir aukalega inn í SÁÁ, ekki síst vegna þeirra aðstæðna sem eru núna þar sem sala t.d. á áfengi hefur aukist mjög mikið og biðlistar í vímuefnameðferðir eru að lengjast. En þá greiðir hv. þingmaður, sem er svona umhugað um að koma fólki í meðferð, atkvæði gegn þeirri tillögu. Mig langar bara að spyrja af hverju það var.