150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég gerir athugasemd við að ég hafi verið að góla á hv. þm. Ásmund Friðriksson. Ég kannast ekki við það og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson er svo sem búinn að gangast við því. En ég geri einnig athugasemdir við fundarstjórn forseta. Nánast hálf ræða hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar var um SÁÁ og þá er mjög furðulegt ef við megum ekki koma í andsvör og spyrja út í ræðu hv. þingmanns. Hvernig eigum við að velja úr? Hv. þingmaður heldur ræðu. Svo fer annar hv. þingmaður í andsvar og spyr þingmanninn beint um umræðuefni þingmanns í ræðunni. Mér finnst þetta því mjög furðuleg nálgun og verð að viðurkenna að þetta gerir það að verkum að það verður alltaf erfiðara og erfiðara að átta sig á því hvað má og má ekki segja í pontu Alþingis og hvenær. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, mér finnst það skerða dálítið málfrelsi mitt hér.