150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:06]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Frumvörpin voru unnin í samráði á milli ráðuneytanna, það var óformlegur samstarfshópur á milli fjármálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis sem vann þessi frumvörp en engu að síður var það svo að hvert og eitt ráðuneyti vann síðan sitt frumvarp og svo var samspil úrræðanna skoðað og rætt á sameiginlegum fundum. Þegar við skoðum hlutabótaleiðina eru auðvitað margir að fara af henni núna vegna þess að samfélagið er að komast aftur í gang innan lands, verið að opna verslanir o.s.frv. Það er því ekki svo að reikna megi með því að allir sem séu á hlutabótaleiðinni séu á leiðinni í uppsögn. Það er líka verið að draga úr hlutabótaleiðinni vegna þess að innlenda hagkerfið er að komast af stað.

Síðan varðandi aðra þætti má reikna með uppsögnum þar en það er mjög erfitt að ákvarða hvernig (Forseti hringir.) samspilið verður vegna þess að þetta verður val fyrirtækjanna. Það liggur alveg (Forseti hringir.) ljóst fyrir að verði úrræði fjármálaráðherra stærra verður þetta úrræði minna en það er erfitt að áætla það líkt og var með hlutabótaúrræðið á sínum tíma.