150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

628. mál
[17:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Fyrsta spurning þingmannsins er um þetta orð, mannhelgi, sem við þekkjum úr fornu máli, sem merkti grið og kemur m.a. við sögu í Ólafssögu Tryggvasonar, ef mig misminnir ekki. En þegar leitað er í lagabálkum sem heyra undir forsætisráðuneytið verður ekki séð að þetta hugtak komi fyrir í lögum sem heyra undir forsætisráðuneytið. Það kemur fyrir í lögum sem heyra undir aðra ráðherra og er ekki alltaf notað í sömu merkingu. Þannig kemur það til að mynda fyrir í íslenskri þýðingu mannréttindasáttmála Evrópu sem er fylgiskjal með lögum nr. 62 frá árinu 1994. Það kemur fyrir í þeirri grein sáttmálans þar sem fjallað er um hvenær frelsissvipting er heimil og er þar þýðing á enska hugtakinu, með leyfi forseta, „security of the person“. Á dönsku er talað um, með leyfi forseta: „personlig sikkerhed“. Þannig vísar hugtakið mannhelgi þarna til þess réttar að þurfa ekki að sæta frelsissviptingu eftir geðþótta stjórnvalda. Síðan kemur þetta hugtak fyrir í lögum á heilbrigðissviði þar sem það er augljóslega í víðari merkingu, þar sem það vísar til reisnar mannsins, einstaklingseinkenna og þeirra réttinda sem honum eru næst.

Þetta ósamræmi í hugtakanotkun í lögum, þegar horft er heilt yfir, er vissulega ekki alls kostar heppilegt og kem ég þá að næstu spurningu hv. þingmanns um hvort umræða hafi orðið um hugtakið í tengslum við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Eftir því sem mér er best kunnugt um hefur ekki verið sérstaklega rætt um þetta hugtak í því sambandi. Það hafa komið fram tillögur um hliðstæð hugtök og ég vísa þá til tillagna stjórnlaganefndar árið 2011 sem lagði til að hugtakið reisn mannsins kæmi fyrir í upphafi endurskoðaðrar stjórnarskrár sem eitt af grundvallargildum lýðveldisins. Í frumvarpi sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði fram haustið 2012, og byggt var á tillögum stjórnlagaráðs, sagði að öllum skyldi tryggður rétturinn til að lifa með reisn og síðan var farið yfir í margbreytileika mannlífsins. Það hugtak var ekki nýtt í því samhengi.

Þriðja spurning hv. þingmanns er hvort ég telji rétt að hugtakið komi fram í stjórnarskrá líkt og hugtakið friðhelgi einkalífs. Eins og kunnugt er stendur yfir endurskoðun stjórnarskrárinnar og fyrirhugað er á næsta kjörtímabili, ef sú áætlun gengur eftir, að taka mannréttindakafla stjórnarskrárinnar til endurskoðunar. Þar liggur beint við að bera þá kaflann saman við þær tillögur sem hafa komið fram síðan þar sem stuðst er við hugtakið um mannlega reisn. Ég vitna til þeirrar aðgerðaáætlunar sem birt var í dag um aðgerðir vegna fjórðu iðnbyltingarinnar, þar sem mælst er til þess að stjórnvöld móti stefnu fyrir Ísland um gervigreind, nokkuð sem ekki hefur verið gert. Ég held að þróun gervigreindar sem og þróun lífvísinda veki auðvitað nýjar spurningar um grundvöll og eðli mannlegrar tilveru sem eru komnar ansi langt frá því sem við þekkjum úr Ólafssögu Tryggvasonar, sem ég nefndi áðan.

Hvar liggja mörkin varðandi lagfæringar á erfðaefni mannsins? Hver verður staða mannsins þegar tæknin getur tekið yfir og jafnvel leyst af hendi þau störf sem fólk innir af hendi í dag? Hvað með sjálfsákvörðunarrétt mannsins í netvæddu samfélagi þar sem eiginleikar einstaklinga, þarfir og langanir hafa verið kortlagðar? Hver verður réttur okkar til að hafna þjónustu sem veitt er af vélum en ekki mönnum, svo að dæmi sé tekið? Þessi grundvallarmál þarf að ræða og móta í slíkri stefnumótun. Ég hef ákveðið að fylgja eftir þessari tillögu sem birtist í dag og efna til stefnumótunar um málefni gervigreindar fyrir Ísland því að þar liggja auðvitað mikil tækifæri. Þar þarf að takast á við siðferðisleg álitamál og það er mjög mikilvægt að við skilum ekki auðu í þeirri umræðu á alþjóðavettvangi sem er til að mynda farin af stað á vettvangi Evrópuráðsins, svo að dæmi sé tekið. Þessi vinna mun vonandi fara fram á næsta ári. Það tengist ekki beint því sem ég nefndi hér um stjórnarskrána en hins vegar held ég að sú vinna gæti nýst í þá vinnu sem mun svo halda áfram á næsta kjörtímabili.