150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:26]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þjóðaröryggi Íslands og efnahagslegir hagsmunir Suðurnesja fara saman á nokkra vegu. Það er þjóðaröryggisatriði að hafa öfluga skóla úti um allt land. Það er þjóðaröryggisatriði að hafa burðuga flugvelli og hafnir. Það er þjóðaröryggisatriði að hafa öflug sjúkrahús. Það er þjóðaröryggisatriði að hafa sjálfstæð og örugg gagnaver í nútímanum og það er þjóðaröryggisatriði að hafa öflugan framleiðsluiðnað. Staðreyndin er að þeir erfiðleikar sem eru í atvinnuvegum á Suðurnesjum eru spegilmynd fyrir stærstu ógnirnar sem snúa að okkur sem þjóð. Hvort sem það er Keilir eða FS, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Keflavíkurflugvöllur, Helguvíkurhöfn, gagnaverin eða þeir tugir þúsunda manna sem gætu verið að byggja upp öflugan framleiðslu- og útflutningsiðnað, þá strandar þetta alltaf á sama stað. Ríkisstjórnir Íslands hafa hverjar á fætur annarri, í marga áratugi núna, brugðist í því verkefni að tryggja að nóg sé til af því sem þarf til að við séum öruggt land. Við erum ekki óörugg í þeim skilningi að við séum berskjölduð fyrir ágangi Rússa eða Kínverja eða Bandaríkjanna eða einhverra annarra. Við höfum ákveðið öryggi þar í formi NATO og miklu meira öryggi þar í formi alþjóðasamvinnu okkar, t.d. við Evrópusambandið. Við erum óörugg í þeim víðari skilningi að hafa ekki mikið þol fyrir því að samdráttur verði í hagkerfinu eða að ríkið forgangsraði fjármunum ekki rétt í heilbrigðismál eða menntamál. Merkilegt nokk skrifast þetta óöryggi ekki á hæstv. utanríkisráðherra og mér finnst örlítið vandræðalegt að hann sé látinn svara fyrir það.

Herra forseti. Hvenær ætli við getum farið að víkja frá þessum fáránlegu patentlausnum þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem aldrei virka og fara þess í stað að búa til einhvers konar alvörusamfélagslegt og efnahagslegt öryggi fyrir íbúa landsins? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)