150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

undirbúningur við opnun landamæra.

[10:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Í gær hlustuðum við á nokkuð merkilegt Kastljós. Ég ætla ekki að spyrja um ummæli varðandi persónur og leikendur, það er af og frá. Og ég ætla heldur ekki að beina spurningu til hæstv. ráðherra varðandi einkarekstur í heilbrigðiskerfinu þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stutt andúð ríkisstjórnarinnar allt kjörtímabilið gagnvart slíkum rekstri. Það er ekki það sem ég ætlaði að spyrja um.

Miklu frekar afhjúpar þetta viðtal við Kára Stefánsson í gær að enn er ekkert skýrt plan hjá ríkisstjórninni varðandi opnun landsins. Við erum í sömu viku og þríeykið okkar góða, Alma, Víðir og Þórólfur, hefur svarað hverri einustu spurningu, kallað fram gagnrýni, sent út skilaboð til að auka traust, eyða óvissu og treysta öryggi fólks á óvissutímum. Það er það sem við erum að fara fram á af hálfu stjórnvalda og ríkisstjórnarinnar líka. Við í stjórnarandstöðunni erum alvön því að ríkisstjórnin er ekkert að hafa samráð við okkur, bara gott og vel. En þetta samráðsleysi við helstu hagsmunaaðila sem geta hjálpað þjóðinni við að opna landið er mér með öllu óskiljanlegt. Það var tekin pólitísk ákvörðun um að opna landið 15. júní og þá hélt ég að menn færu í að undirbúa það og tala við þá sem geta hjálpað okkur við það, óháð því hvort þeir aðilar væru innan opinbera heilbrigðiskerfisins eða á prívatmarkaði.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann það hafa verið heppilegt — það voru vel að merkja sex ráðherrar sem tilkynntu þessa opnun með pompi og prakt fyrir tveimur vikum — að tíminn síðan þá hafi ekki verið nýttur í að klukka og tala við helstu aðila, þá aðila sem hafa sýnt fram til þessa að þeir hafa hjálpað okkur í baráttunni við veiruna? (Forseti hringir.) Telur hann þetta heppilega framvindu? Telur hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að heilbrigðisráðherra eigi að tala við alla þá sem geta lagt hönd á plóg og aukið traust og öryggi almennings?