150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

undirbúningur við opnun landamæra.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að þegar hv. þingmaður segir að það sé ekkert plan þá held ég að það sé séu mikil öfugmæli. Við höfum verið að fylgja áætlun sem hefur gengið fullkomlega upp og þannig að vakið hefur mikla athygli. Þegar hv. þingmaður vísar til þess að sex ráðherrar hafi kynnt áætlun um næstu skref þá er það næsta plan og þau atriði sem hv. þingmaður nefnir að standi út af núna eru bara framkvæmdalegs eðlis. Ef marka má það sem fram kom í Kastljóssþættinum í gærkvöldi er kannski það eina sem þarf að gerast að Kári Stefánsson breyti einni stillingu í símanum sínum vegna þess að ekki útilokaði hann að fyrirtækið kæmi að málum ef eftir því væri leitað. Vissulega er það rétt að Íslensk erfðagreining hefur gegnt lykilhlutverki í að tryggja framkvæmd skimunar á Íslandi, þannig að við erum eingöngu að tala um framkvæmdaleg atriði áætlunar sem er alveg skýr og er auðvitað miðuð við aðstæður sem eru síbreytilegar. Við eigum t.d. erfitt með að segja fyrir um það nákvæmlega hversu margir munu koma til landsins með flugvélum síðari hluta júnímánaðar. Það er mjög erfitt að spá fyrir um það. En aðalatriðið er að við höfum sýnt það í verki að við erum með áætlun sem gengur vel upp. Við erum með gott fólk með okkur og núna mun reyna á að framkvæma þessa metnaðarfullu áætlun um skimanir á Keflavíkurflugvelli og ég er í engum vafa um að við munum leita allra leiða til þess að það gangi sem best upp.