150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur áhugavert andsvar. Ég verð að játa að ég villtist af leið þegar ég hlustaði á þingmanninn þegar síðan kom spurning um allt annað í blálokin en það sem þingmaðurinn hafði rætt um. Ég geri ráð fyrir að þingmaðurinn eigi við 3. tölulið breytingartillagna Samfylkingarinnar. (OH: 8. og 9. gr.) Það er 3. og 4. töluliður breytingartillagnanna samkvæmt skjalinu. (Gripið fram í.) Já, svo mun vera. Ég held að þetta sé önnur aðferð, að sú leið sem þingmaður Samfylkingarinnar velur sérstaklega í 8. gr., ef við byrjum á henni, sé töluvert öðruvísi en sú leið sem valin er í frumvarpinu. Þarna er gert ráð fyrir að greitt verði álag á tekjuskatt þessara fyrirtækja og gefinn tíu ára gluggi, ef ég skil þetta rétt, til að borga til baka stuðninginn. Ég býst við að það sé vangaveltan.

Ég tel að sú aðferð sem er til að mynda í 9. gr., og svo tekjufærslan í 8. gr. frumvarpsins eins og það kemur fyrir núna, sé eðlilegri en þessi. Ég átta mig til að mynda ekki alveg á hvort tillöguflytjandi á við með 10% álaginu að það væri fyrst og fremst til að hækka þá skattskuld sem eftir er og þar með verði í rauninni lengri tekjufærsla en ella hefði orðið. Ef hugmyndin (Forseti hringir.) er að reyna að aðstoða fyrirtæki þá sé ég ekki alveg hvernig það verður. Að vísu myndi ríkissjóður fá meiri pening til baka (Forseti hringir.) en það er svolítið hagsmunamat hvernig meta á þann stuðning sem við ætlum að veita fyrirtækjunum. (Forseti hringir.) Ég held að sú aðferð sem valin er í frumvarpinu sé skynsamlegri en þessi.

(Forseti (HHG): Forseti minnir á ræðutímann.)