150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þarna voru nokkrir hlutir sem maður staldrar aðeins við. Hv. þingmaður lét uppi þá afstöðu sína að hér í þingsal ætti sér stað karp milli nefnda um hvor leiðin væri betri. Ég held að það hljóti þá að vera nauðsynlegt að upplýsa þá sem eru að hlusta að það virðist vera mjög mikill ágreiningur milli stjórnarflokkanna þessar mínúturnar og klukkustundirnar um það sem er að gerast.

Hér hafa þingflokkar verið kallaðir til fundar. Hér eru fundarhlé, fleiri en eitt og fleiri en tvö, og þingfundur er ekki með hefðbundnum hætti af því að það er augljóst að það ríkir engin sátt um þær leiðir sem stjórnvöld eru að fara samhliða. Þetta snýst ekki um að einhver metingur sé milli fastanefnda Alþingis. Það er einfaldlega verið að benda á að þau úrræði sem verið er að bjóða upp á hér, sem meiri hlutinn, ýmist allur eða hluti hans, mun styðja, eru mjög umdeild af því að það er umdeilt hvort þau muni gera meira gagn eða valda meira tjóni.

Þegar hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir gerir í ræðustól lítið úr þeim umræðum sem hér hafa verið og eiga sér stað í öllum hliðarherbergjum, eins og það sé bara eitthvert gamanmál þegar um er að ræða hagsmuni lands og þjóðar til ókominna ára, þá verð ég að segja að ég er nokkuð undrandi á (Forseti hringir.) því hversu léttvægt hún lítur á það.