150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:15]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ærlegt svar, ég átti svo sem ekki von á öðru. Í þessari stöðu, þessari miklu óvissu, fóru fyrirtæki þessa leið, með engin skilyrði og hvatningu til að leita þessarar leiðar, í mikilli rekstrarlegri óvissu, vissulega með sterkan efnahagsreikning, en það gengur líka hratt á hann hjá sumum þegar tekjufallið er nokkurt. Þannig virka viðskipti og þegar fyrirtæki horfa líka framan í það að þurfa að styrkja efnahaginn með öllum ráðum þá skipta skilaboðin máli. Hver eru skilaboðin? Fyrirtækið nýtur stuðnings en maður hreyfir sig ekki í þrjú ár til þess að bjarga fyrirtækinu. Það eru röng skilaboð til atvinnulífsins. Það eru röng skilaboð að mínu viti. Ég er satt að segja rasandi hissa á þessari niðurstöðu.