150. löggjafarþing — 111. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[22:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða úrræði þar sem litið er til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 75% eða meira tekjufalli. Það er algerlega fráleitt að rætt sé um það í því samhengi að við séum hér með einhvers konar fjárhagslegan hvata til fyrirtækja til að segja fólki upp. Menn verða aðeins að gera sér grein fyrir mengi þeirra fyrirtækja sem við erum að tala um. Tekjuhrunið er algert. Þetta eru fyrirtæki sem eiga ekki fyrir mánaðarlaunum. Eftir að við þrengjum skilyrðin í hlutabótaleiðinni þá er hún ekki heldur fýsileg vegna þess að við ætlum að fara með þröskuldinn upp í 50% og þau eiga ekki fyrir hálfum launum. Með þessu máli erum við að tryggja að öll fyrirtæki sem lenda vegna tekjuhruns í þeirri hrikalegu stöðu að þurfa að segja upp fólki, sem þessi fyrirtæki sannarlega vildu ekki gera, geti að fullu staðið við öll umsamin réttindi, laun hvern einasta mánuð á uppsagnarfresti, launatengd gjöld sömuleiðis (Forseti hringir.) og orlofsrétt. Án þessa máls væri staða allra þeirra launþega sem starfa hjá fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir tekjuhruni í algeru uppnámi. (Forseti hringir.) Það er fáránlegt að tala um að þetta mál sé hvati til að segja fólki upp.