150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, það skiptir máli að við reynum að gera allt sem í okkar valdi stendur. Það er það sem við erum að tala um, þ.e. forvarnir, að reyna að koma í veg fyrir að eitthvað gerist. En það er líka mikilvægt að þeir sem sýsla með börn og ungmenni og vinna með þeim séu í færum til að greina og vera meðvitaðir um hvaða merki það eru sem lesa þarf að í og annað slíkt. Grundvallarhugsunin í þessu finnst mér vera sú að mennta það fólk sem vinnur með börnin okkar og ungmennin, að það fólk sé í færum til þess að leiðsegja þeim annars vegar og bregðast við og grípa inn í ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þess vegna segi ég: Forvarnirnar í þessu eru kannski það sem skiptir mestu máli.

Hitt er svo alveg rétt, eins og hv. þingmaður bendir á, sem varðar stafrænt ofbeldi. Ofbeldi er alls staðar, því miður. Það er alveg sama hvort það er á stafrænum miðlum eða hvort það er í orði eða hvernig það nú er, það er bara mikilvægt að uppræta það og ég treysti því að með því að þetta komi árlega inn á borð ráðuneytisins, og að við getum árlega kallað eftir upplýsingum um hvernig gengið hefur þá höfum við færi, tól, tæki í höndunum til þess að sjá hvort fjármuni vanti eða hvort það vanti upp á að þeir sem sýsla með þessi mál, hafa átt að búa til námsefni eða standa fyrir námskeiðum eða gera eitthvað sem í þessu er, hafi gert það, þá eigum við að geta fundið út úr því og brugðust við að mínu mati. Þannig að ég vona að þetta nái fram að ganga eins og við leggjum hér upp með.