150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi nokkur dæmi um reglur sem ekki hafi gengið nógu vel að framfylgja að undanförnu, t.d. varðandi jafnréttissjónarmið og ýmislegt varðandi hagsmunaskráningu ráðherra og annarra. Ég get glatt þingmanninn með því að við þessu er brugðist í áliti minni hluta nefndarinnar með því að færa eftirlitið til sjálfstæðrar nefndar, sem ég held að sé mjög góð leið til að koma til móts við áhyggjur þingmannsins um að reglurnar verði bitlausar. Ef eftirlitið er sjálfstætt og hefur víðtækari heimild til gagnaöflunar og rýni er líklegra að allt ferlið verði gagnlegra. Sama má reyndar segja um viðurlög. Ég er sammála þingmanninum að það væri æskilegt að sjá einhvers konar viðurlög í frumvarpinu. Þar er rétt að benda aftur á álit minni hlutans sem lagði það til.

Hins vegar varðandi það sem þingmaðurinn segir að sé misskilningur á hlutverki aðstoðarmanna í ráðuneytum vil ég benda á að þeir tveir þingmenn sem hafa rætt þessi mál hér í dag, sá sem hér stendur og hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, hafa báðir verið aðstoðarmenn og vita ágætlega hvað felst í starfinu. Ég vona alla vega að ég hafi ekki misskilið hvað ég var að gera öll þau þrjú ár sem ég sat í ráðuneytinu. En það sem ég sagði var einmitt ekki að aðstoðarmenn hefðu valdið, eins og þingmaðurinn sagði, heldur að aðstoðarmenn tækju ekki ákvarðanir en hefðu aðgang að öllum upplýsingum og tengslanetinu sem ráðherrar hafa. Það er einmitt, eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins, tengslanetið og aðgangur að trúnaðarupplýsingum sem er ástæða þess að snúningshurðarákvæðið (Forseti hringir.) er sett en ekki það hvort fólk tekur stjórnvaldsákvarðanir eða ekki.

(Forseti (ÞorS): Það fer vel á því að hv. þingmenn vísi til hver annars sem háttvirtra.)