150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:31]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði nú talið að þetta mál varði fyrst og fremst starf okkar sem hér sitjum, þ.e. á Alþingi. Ákveðið var að óska eftir áliti fjármálaráðs á því að fresta þeim málum sem um ræðir, sem eru ástæða þess að við erum að fresta reglulegum samkomudegi þingsins því að samkvæmt stjórnarskrá er fyrsta mál hvers þings fjárlagafrumvarp. Ég lít ekki svo á að Alþingi þurfi að kalla til sérstaka gesti til að ræða það hvernig það hagar vinnu sinni heldur tel ég mikilvægast að við eigum það samtal hér innan húss. Að sjálfsögðu var orðið við því að óska eftir þessari umsögn fjármálaráðs sem sendi formönnum flokkanna umsögn sína og gerði þá athugasemd að gott væri að ræða fjármálastefnuna fyrr. Þess vegna er það tillaga mín og ég lít svo á að við hljótum öll að vera sammála um það hvernig þetta vinnulag eigi að vera. Ég tel ekki endilega að við þurfum að kalla til ýmsa hagsmunaverði úti í samfélaginu til að ræða það hvernig við högum þingstörfum.