150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[19:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, með síðari breytingum, átak í fráveitumálum, og meðfylgjandi nefndarálit og breytingartillögu. Ég fagna þessu máli. Þótt komið hafi fram í máli hv. þm. Birgis Þórarinssonar að þetta væri lítið skref í stóra samhenginu þá langar mig samt sem áður að fagna þessu skrefi því að fráveitumálin eru búin að hanga yfir okkur gríðarlega lengi. Þetta eru rosalega dýr úrræði, dýrar framkvæmdir. Ég þekki það sjálfur frá því að ég var í sveitarstjórn og bæjarstjórn að framkvæmdin sem fara þurfti í til að uppfylla lágmarkskröfur um fráveitur hljóp á milljónum og tugum milljóna. Þar af leiðandi sat slíkt oftast á hakanum nema það sem bráðnauðsynlegt var. Við höfum oft talað um, sérstaklega á þeim stöðum sem eru við sjóinn, að lengi taki sjórinn við, straumarnir séu miklir og að það fari bara út í buskann sem við sturtum niður og þar fram eftir götunum. Sjálfsagt gerir það það víðast hvar. En það er alls ekki nógu gott í stóra samhenginu hvernig fráveitumálum hefur verið þjónað síðustu ár í ljósi krafna um betri skil á því.

Nú hefur byggð aukist uppi í landi og þar eru þá öðruvísi úrræði og jafnvel dýrari. Þetta er því stórmál og þyrfti virkilega að taka til hendinni í þeim efnum. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni að einhvers konar hvatar, einhvers konar virðisaukaskattsafsláttur eða niðurfellingar og önnur slík úrræði myndu hjálpa til í þessu efni. Ef rétt er að það myndi kosta 50–80 milljarða að koma fráveitumálum í lag á landinu þá er það ekkert smáverkefni. Í sambandi við skuldbindingar eða EES-skuldbindingar og þá staðla sem eru vegna þeirra samninga þá er langt í land að þetta sé í lagi. En kannski má segja í þessu máli að mjór er mikils vísir og ætla ég ekki að fara í neina „díteila“ í því enda hef ég ekkert kynnt mér þetta mál nema bara að öll svona skref eru þó skref í rétta átt.

En mig langar aðeins að nefna annað mál þar sem við erum, vil ég leyfa mér að segja, líka með allt niður um okkur í. Það eru sorpmál. Nú erum við að komast að því að það hafi verið reginmistök að fara í mikla urðun á sorpi. Ég hef líkt því við það að sópa ruslinu undir teppið. Ef maður sópar ruslinu undir teppið er það bara undir teppinu, það fer ekki neitt. Það eru til betri lausnir. Nú er komin sú tækni að hægt er að eyða sorpi án þess að það valdi mikilli mengun. Mig langar að nefna þingsályktunartillögu sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason er með um sorpbrennslu. Sú tillaga er byggð á fyrirmynd af sorpbrennslum sem til eru og eru starfandi, alla vega í Skandinavíu. Það er stórmál að stíga skref í þessa átt. Eins í sambandi við sorp sem flutt er í gámum til eyðingar, eins og ég talaði um er það eins og að sópa ruslinu undir teppið. Það er eins og að henda ruslinu í tunnurnar hjá nágranna sínum. Við eigum stór verkefni þar fyrir höndum. Þetta kom upp í huga mér þegar ég hlustaði á framsögu og ræður um fráveitumál. Ég hvet okkur þingmenn og stjórnmálamenn til að vinda sér í þessi mál. Þetta er dýrt en þetta er nauðsynlegt. Það er líka dýrt að ganga ekki vel um náttúruna og það kemur í bakið á okkur síðar. Að því sögðu ætla ég að láta þetta gott heita.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska og minnir sérstaklega á hið góða og gilda orð „smáatriði“.)