150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil einfaldlega horfa í reynsluna af því að reyna að fá fólk til að nýta almenningssamgöngur. Hún er ekki góð á Íslandi. Það er staðreynd að einkabíllinn er hverri fjölskyldu mikilvægur en það er hins vegar líka staðreynd að á höfuðborgarsvæðinu hafa borgaryfirvöld, meiri hlutinn í borgarstjórn, gert allt til þess að koma í veg fyrir að fólk geti notað einkabílinn, það á bara að stjórna og stýra fólki í almenningssamgöngur — (BLG: … ljúga í pontu …) Hv. þingmaður, ekki grípa fram í, (Forseti hringir.) frú forseti.

(Forseti (BHar): Fá hljóð í salinn, gefa ræðumanni orðið, takk fyrir. )

Hv. þingmaður er alltaf gjammandi fram í og svo kvartar hann yfir því að verið sé að grípa fram í fyrir honum sjálfum. Ég vil segja það hér, (Gripið fram í.) frú forseti, að það er óforsvaranlegt, á þessum tímum sérstaklega, að setja 50 milljarða af skattfé almennings í einhverja borgarlínu til að segja fólki hvernig það á að ferðast á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum engan veginn efni á þessu eins og staðan er núna og ég efast um að landsmenn og (Forseti hringir.) höfuðborgarbúar séu fylgjandi þessu (BLG: … 50 milljarðar …) eins og hv. þingmaður vill halda fram.