150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild fyrir stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Tilefni lagasetningarinnar er að uppfylla skuldbindingar samgöngusáttmála sem ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér í september 2019 um skipulag og fjármögnun á samgönguinnviðum, þar með töldum innviðum almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til næstu 15 ára. Þau sex sveitarfélög eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Seltjarnarnesbær og Mosfellsbær.

Fram að stofnun félagsins annast Verkefnisstofa um borgarlínu í samstarfi við Vegagerðina undirbúning verkefnisins samkvæmt samningnum. Félagið mun vera í sameiginlegri eigu ríkisins og þessara sex sveitarfélaga, þó með mismikilli eignaraðild, eins og kemur fram í frumvarpinu. Félagið á að hafa það verkefni að sjá um utanumhald og uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033. Áætlaður kostnaður við verkefnin, sem eru fjölbreytt og mikil, er 120 milljarðar. Þar af mun ríkið leggja fram 45 milljarða í beinum framlögum og hluti af því framlagi eru 15 milljarðar vegna fyrirhugaðrar sölu á Keldnalandinu sem ríkið leggur í verkefnið en restin kemur úr samgönguáætlun. Ég vil vekja athygli á því hér, herra forseti, að Keldnalandið er eitt allra verðmætasta byggingarland á höfuðborgarsvæðinu. Ríkið leggur það inn í þetta verkefni. Sveitarfélögin leggja fram 15 milljarða. Síðan er reiknað með því að 60 milljarðar verði fjármagnaðir með flýti- og umferðargjöldum sem eru þó í ákveðinni óvissu, eins og kemur fram í greinargerðinni og er þar til vara einnig rætt um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Kostnaður við einstakar framkvæmdir sem nefndar eru í nefndaráliti er 52 milljarðar í stofnvegi, tæpir 50 milljarðar í borgarlínu, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og loks 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og öryggisaðgerðir. Þar er miðað við að innleidd verði stafræn umferðarstýring á svæðinu öllu.

Það má kannski segja, herra forseti, að unnt sé að fagna þeim áherslum sem koma fram í frumvarpinu um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. Ég geri það hér með. Það má fagna löngu tímabæru samkomulagi um framkvæmdir á stofnbrautum, svo lengi hafa íbúar beðið eftir því að tekið verði til við að greiða úr umferðarteppum sem þeir hafa beðið í. Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa beðið í umferðarteppum undanfarin ár þannig að ég fagna því sérstaklega ef á að bæta þar úr.

Miðflokkurinn getur þó ekki fallist á áform um uppbyggingu svokallaðrar borgarlínu, eins og kom fram í framsögu hv. þm. Birgis Þórarinssonar sem skilaði séráliti við frumvarpið, einfaldlega vegna þess að þar er um að ræða framkvæmd sem hefur á sér blæ algerrar óvissu um eiginlega flesta hluti. Þannig er óvissa um skipulag verkefnisins, framkvæmd, rekstur og síðast en ekki síst fjármögnun.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að nauðsynlegt sé fyrir ríkið í því ástandi sem nú ríkir að veita aukið fé til fjárfestinga, eða eins og stendur, með leyfi forseta: „… að stuðla að aukinni framleiðni með áherslu á efnahagslega arðbær verkefni.“ Hversu arðbært er borgarlínuverkefnið? (Gripið fram í: Mjög.) Eiginlega er sá hluti samkomulagsins sem snýr að borgarlínu í algjörri og fullkominni þoku. (Gripið fram í: Nei.) Þegar svo háttar til er það fyrirboði um að því muni fylgja óheyrilegur kostnaður til langrar framtíðar, líkt og óútfyllt ávísun, ef nokkur man eftir slíkum gjaldmiðli. Óútfyllt ávísun var undirrituð af útgefanda tékkans og skuldbatt hann til greiðslu andvirðis hans nema hvað að handhafi gat fyllt sjálfur út reit með fjárhæð tékkans. Slíka skuldbindingu lét enginn frá sér nema vera viðbúinn því að fá í höfuðið hvaða kröfur sem vera skyldi.

Það er ekki forsvaranlegt að ráðstafa tugum milljarða í þann hluta verkefnisins þar sem engin rekstraráætlun liggur fyrir. Það er til að mynda ekki búið að útlista hvernig á að koma mannvirkjum borgarlínu fyrir í vegakerfi höfuðborgarsvæðisins (Gripið fram í: Jú.) nema þrengja verulega að þeim samgönguæðum sem fyrir eru og eru stappfullar af óþreyjufullum höfuðborgarbúum á leið til og frá vinnu dag hvern. Athygli vekur að ekkert hluthafasamkomulag liggur fyrir á þessari stundu og gera má ráð fyrir að það samkomulag verði höfuðverkur allra þessara sex sveitarstjórna og ríkisstjórnarinnar en það lifir auðvitað langt inn í kjörtímabil ókjörinna fulltrúa allra þessara stofnana. Um þetta á að stofna opinbert hlutafélag. Gott og vel. Hver er reynslan af opinberum hlutafélögum? Hver er reynslan af tilraunum okkar hér til að fá upplýsingar út úr þessum félögum, eins og t.d. Lindarhvoli? Hver hefur reynslan verið? Ég er hér að tala um borgarlínu fyrst og fremst.

Ég finn ekki að öðrum þáttum þessa verkefnis eins og uppbyggingu stofnvega á höfuðborgarsvæðinu, göngustíga, göngubrúa og umferðarstýringar, alls ekki. Ég styð það fullkomlega og tel það löngu tímabært en ég set spurningarmerki við borgarlínuna vegna þeirrar óvissu sem ég tel vera um það verkefni, óvissu um hvað það er í raun, hvernig á að vinna það og hvernig það kemur til með að hafa áhrif á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. umferðarflæði á helstu stofnbrautum. Miðað við það sem ég hef séð á að nýta þær samgönguæðar sem fyrir eru, sem mun óhjákvæmilega þrengja að annarri umferð. Nú hristir hv. þingmaður höfuðið en það mun óhjákvæmilega — nema þetta verði einhvers konar svifnökkvar, en ég hef ekki heyrt það — þrengja að þeirri umferð sem fyrir er og valda enn frekari teppum.

Sá draumur sem býr í hugum mjög margra, sem ég get fullkomlega skilið og verið sammála, að íbúar höfuðborgarsvæðisins nýti almenningssamgöngur miklu meira en nú er, væri æskileg framtíðarsýn en við höfum reynt árum saman, lagt aukið fjármagn í almenningssamgöngur, síendurtekið mikla fjármuni. Samt líður varla sá dagur að maður mæti ekki almenningsvögnum á ferð um höfuðborgarsvæðið og víða um land þar sem er einn eða tveir eða enginn farþegi. Það er fallegur draumur að allir noti almenningssamgöngur. En þessi draumur hefur ekki gengið upp. Auðvitað verðum við að hafa almenningssamgöngur, ég styð þær, en þetta er einhvers konar útópía, að þetta verði svona eins og í erlendum góðviðrisstórborgum, menn gangi hér um og hoppi upp í næsta strætó. Ég get alveg séð það fyrir mér að það sé afskaplega fallegt. En það hefur ekki gengið. Við þurfum einhvern veginn að efla almenningssamgöngur þannig að fólk noti þær meira, en að koma með svona óljósar hugmyndir eins og þessi borgarlína er og láta teyma ríkisvaldið í að setja tugi milljarða í verkefni sem er eins óljóst og þetta finnst mér ábyrgðarhluti. Miðflokkurinn getur ekki fallist á þessar hugmyndir um borgarlínu.