150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur greinilega misskilið mig á fleiri en einn hátt, það er auðvelt. Þegar ég sagði á hvers kostnað þá meinti ég á kostnað hvers sem hefur plássið. Hver á að láta plássið eftir fyrir rauða dregilinn? Hver á að láta það eftir á Miklubrautinni milli Snorrabrautar og Kringlumýrarbrautar? Hver á að láta það eftir milli Kópavogs og Reykjavíkur? Hver á að láta plássið eftir? Hvaða tegund af samgöngum á að láta plássið eftir?

Síðan verð ég að spyrja einnar spurningar, lykilspurningar, vegna þess að það hefur ekki fengist svar við henni. Hvað er borgarlínan? Nú veit ég að formaður stjórnmálaflokksins sem hv. þingmaður tilheyrir veit ekki hvað borgarlínan er. Þá langar mig að spyrja einnar aukaspurningar: Hefur hv. þingmaður sagt formanni sínum hvað borgarlínan er og getur hún þá sagt okkur það líka?