150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki nóg með að við hv. þingmaður séum oft sammála, við erum líklega báðir orðnir mjög rómantískir miðað við [Hlátur í þingsal.] þessa ræðu hans sem er ágætisstaðfesting, gott að muna.

Ég er sammála hv. þingmanni. Við eigum að horfa á lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki og reyna sérstaklega að gera þeim lífið léttara. Almennt á umhverfi atvinnulífsins að vera þannig að það sé ekki íþyngjandi. Það er eðlilegt að gera stífari kröfur til fyrirtækja sem velta mörgum milljörðum en lítilla fyrirtækja. Það er alla vega mynd sem ég sé alveg fyrir mér að megi skoða og þurfi reyndar að skoða. Ég held að við eigum að reyna að hvetja til þess að einstaklingar fari út í rekstur, fjölskyldur taki sig saman, því að við vitum að hjarta og sál eru gjarnan lögð í slíkan rekstur. En þá þarf umhverfið vitanlega að vera þannig að menn geti lifað þokkalega af því en séu ekki með of háan kostnað og slíkt. Athugasemdir sem komu fram við þetta frumvarp eru að mig minnir einmitt í þá veru að það kunni að þurfa að breyta aðeins upphæðar- eða stærðartakmörkunum varðandi minni fyrirtækin.

Þetta helst í hendur sjálfsögðu, fyrirtæki, þ.e. atvinnan, og svo heimilið og fjölskyldan. Það eru annars vegar þeir sem eru með hvort tveggja á sinni könnu og hins vegar hinir sem vinna hjá einhverjum öðrum án þess að hafa bein tengsl við fyrirtækið. Atvinnulífið væri frekar lítils virði ef ekki væru starfsmenn til að vinna þar, þótt það sé kannski auðveldara í dag að verða sér úti um starfsfólk. En að sama skapi væri náttúrlega mjög bágborið ástand ef við hefðum ekki fyrirtæki, ef fólk hefði ekki atvinnu af því að vinna hjá öðrum sem hafa fengið góðar hugmyndir, sem hafa búið til góð fyrirtæki sem eru að skapa störf og tekjur. Sú samfella þarf að sjálfsögðu að vera í lagi því að (Forseti hringir.) það er alla vega mjög erfitt að sjá það fyrir sér, ég sé það ekki alla vega, (Forseti hringir.) að við getum verið með atvinnulíf án þess að einstaklingurinn beri þar mikla ábyrgð.