150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:21]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við þurfum sem sagt annars vegar að greiða götu þeirra sem þurfa á því að halda og nota til þess þessi meðul reikninganna og hins vegar þurfum við að koma í veg fyrir misnotkun. Kannski fer það að einhverju leyti hvort í sína áttina.

Mig langar í framhaldi af því að beina spurningu til hv. þingmanns sem ég veit að er vel inni í þessum málum og hefur kynnt sér þau vel: Er sú tilfinning rétt sem ég hef að eftir hrun hafi komist betri skikkur á reikningsskil og ársreikningahald og það sé minna um það að endurskoðendur taki jafnvel þátt í starfsemi sem getur kannski talist siðferðilega hæpin, hugsanlega varðað jafnvel við lög í einhverjum skilningi? Er minna um það eftir hrun en var á árunum fyrir það?