150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það var áhugaverð umræða áðan um eitthvert málþóf en hún var ekki alveg hárnákvæm. Ekki einu sinni ræður Miðflokksmanna um borgarlínumálið eru farnar að nálgast málþóf enn þá. Þótt þeir séu gjörsamlega úti á þekju hvað varðar þau rök sem þeir nota þá held ég að þeir trúi þeim innilega. En það er hægt að vera með innilega trú án þess að það sé nokkuð á bak við hana. Trú á æðri máttarvöld er t.d. eitt dæmi um það.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir hérna er einmitt það meirihlutavald sem við höfum verið að tala um í dag. Meiri hlutinn er einfaldlega með allt valdið og getur beitt því til að koma sínu á framfæri. Það eina sem minni hlutinn getur gert er að mæta í þennan ræðustól og andmæla því þegar farið er illa með það vald. Það hefur vissulega verið gert. Á einhvern hátt getur það að mæta í ræðustólinn verið túlkað sem það að fara illa með eina valdið sem minni hlutinn hefur, (Forseti hringir.) þ.e. að þæfa mál á einhvern hátt. En við erum langt frá því að vera komin þangað. (Forseti hringir.) Ég er t.d. með hálfundirbúna ræðu um ársreikninga þar sem fjallað er um þá í samhengi við opinber fjármál (Forseti hringir.) og skil á ríkisreikningi því að það skiptir mjög miklu máli. En í almennri umræðu (Forseti hringir.) verð ég að gera það seinna.