150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[16:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þann hluta ræðunnar sem ég hlýddi á. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég missti af fyrri hluta hennar. (BergÓ: Þetta var lykilræða.) Ég get flett henni upp á netinu. Ég er að velta fyrir mér sjónarmiði hv. þingmanns gagnvart því sem hann nefndi í blálok ræðu sinnar, um skyldurnar sem við setjum á herðar fyrirtækjum. Á hvaða tímapunkti eru þær orðnar þannig að þær hindra í raun getu fólks í greinum sem eru ólíkar bókhaldi og endurskoðun og þess háttar til þess að sinna einfaldlega sinni vinnu? Andstætt því sem sum batterí í kerfinu virðast halda er rosalega mikið af fólki sem hefur áhuga á því að stofna fyrirtæki og vinna sínu vinnu og vera sinn eigin yfirmaður og allt það en hefur kannski ekki brennandi áhuga á því að skila ársskýrslum eða skattgögnum eða hverju öðru sem er, þótt það séu auðvitað mikilvæg gögn af alls kyns ástæðum.

Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér í þessari umræðu hvernig við gætum í raun mælt þau mörk þegar kröfurnar sem við setjum á fyrirtæki, sér í lagi lítil fyrirtæki með litla sjálfstæða burði, nema með því að kaupa þjónustu úti í bæ eins og hv. þingmaður fór yfir, og byrðarnar sem við setjum á fyrirtækin að þessu leyti eru orðnar það miklar að það hafi meiri skaðleg áhrif en jákvæð. Þetta kostar peninga og allt sem kostar tíma eða vinnu í fyrirtækjarekstri kostar beinharða peninga eða kostar eitthvað á einn eða annan hátt, ekki endilega í beinhörðum peningum. Það er tími sem færi í eitthvað annað, t.d. að einfalda reksturinn eða sækja sér fleiri viðskiptavini eða hvernig sem það er eða bara að vinna vinnuna.

Ég verð að segja að áður en ég kom hingað á Alþingi þá hafði ég engan svakalegan áhuga á þessu, (Forseti hringir.) fannst þetta afskaplega þreytandi og vera mikil tímasóun, (Forseti hringir.) sem það er ekki þegar maður fer að hafa áhuga á því að skilja gagnsemina. (Forseti hringir.) En við hljótum að vilja hafa kerfið þannig að fólk sem vill starfa á einhverju sviði geti einbeitt sér að því.