150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

afsögn formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

[15:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta eru tíðindi og þau vekja upp spurningar. Ég er nýr nefndarmaður í nefndinni en ég er þeirrar skoðunar, og ég held að við ættum öll að vera það, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé mikilvægt verkfæri þingsins sem fjallar um tilkynningar og skýrslur umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar, hefur frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra og verklag þeirra, gerir tillögur um hvenær rétt sé að skipa rannsóknarnefnd o.s.frv. og gefur þinginu álit sitt um skýrslur þeirra. Það gefur augaleið að verkefnin eru erfið. Þau eru pólitískt viðkvæm verkefni og augljóslega pólitískt mikilvæg og það þarf pólitískan þroska þingsins til að nefndin geti staðið undir verkefnum sínum.

Það er umhugsunarvert, og ég vona að við séum öll þeirrar skoðunar að svo sé, að við erum núna að horfa upp á formann nefndar lýsa því yfir að hún telji sig ekki hafa svigrúm til að sinna þeim verkefnum og að það sé hennar upplifun að menn leggist gegn því. Það er umhugsunarvert fyrir stöðu þingsins ef vinnubrögð eru (Forseti hringir.) til þess fallin að veikja nefndina í mikilvægum störfum og umhugsunarvert fyrir samfélagið allt. Ég vona svo sannarlega að við öll hér inni, ríkisstjórnin þar með talin, taki því ekki af léttúð (Forseti hringir.) sem hér er að gerast og hafi burði í sér til að ræða það hvers vegna það gerist (Forseti hringir.) og hverjar afleiðingar þess geta verið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)