150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[17:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að kvarta yfir þessu frumvarpi og afgreiðslu nefndarinnar að hluta því að ákveðið atriði vantar í frumvarpið og nefndarálitið, þ.e. mat á áhrifum. Sagt er í frumvarpinu að það sé mjög erfitt að gera þetta mat á áhrifum, meta hvaða áhrif frumvarpið muni hafa á opinberan rekstur, skuldbindingar hins opinbera og þess háttar. Ég hef ákveðinn skilning á því. En ég hef ekki skilning á því að ekki sé einu sinni reynt að koma með einhvers konar greiningu þar á, því að fyrir stuttu síðan var einmitt farið yfir það að við erum að fara að afgreiða fjáraukalagafrumvarp um hlutabótaleiðina, bæði þá fyrri og þá sem er búið að þrengja. Það frumvarp var með mat á áhrifum upp á tæpar 800 millj. kr. og endaði í 27 milljörðum, minnir mig, bara fyrri leiðin, sem var án mikilla takmarkana, og í um 35 milljörðum í heildina, að því er áætlað er. Það eitt og sér að í frumvarpi um hlutabótaleiðina hafi mat á áhrifum verið upp á tæpar 800 milljónir segir okkur í þinginu að það eru takmörk á því hvað framkvæmdarvaldið notar af fjárheimildum í þau lög. Þannig að það er dálítil skvetta í andlitið þegar framkvæmdarvaldið kemur síðan einhverjum mánuðum seinna og segir: Nei, þetta voru ekki 800 milljónir heldur 45 sinnum meira. Jú, jú, það komu áætlanir, meira að segja daginn eftir að frumvarpið var samþykkt á þingi, um að kostnaðurinn yrði jafnvel 22 milljarðar. En það er ekki nóg að koma með einhverjar svoleiðis greiningar eftir að búið er að samþykkja lögin.

Lögin eru skýr og ef það á að breyta þeim eitthvað eftir því sem fram vindur á að fara til þingsins og leita eftir fjárheimildum. Þess vegna sakna ég þess að hafa mat á áhrifum í þessu frumvarpi. Við vitum ekki hvað þetta kemur til með að kosta né heldur eru takmörk á því hvað framkvæmdarvaldið getur í rauninni eytt miklu fé í þetta og komið síðan einhvern tímann í haust með fjáraukafrumvarp — fyrir hvað marga milljarða? Hef ekki hugmynd.

Það er það sem er að af því að á þeim tíma sem við erum að fresta framlagningu fjármálastefnu og fjármálaáætlunar, sem setja á stjórnvöldum ákveðin takmörk, á að ríkja gagnsæi um aðgerðir stjórnvalda, algjört gagnsæi, eins og fjármálaráð fjallaði um, og tilkynna á um framvinduna til þingsins. Ef á annað borð á að komast upp með þá afsökun að ekki sé hægt að setja fjármálastefnu og fjármálaáætlun við þessar aðstæður verður að ríkja gagnsæi. Þetta frumvarp er dæmi um þegar ekki er gagnsæi. Ég efast einhvern veginn um að við fáum stafkrók um það hvernig gengur með skuldbindingar og kostnað hvað þetta frumvarp varðar fyrr en við fáum allt í einu að sjá það í fjáraukafrumvarpi einhvern tímann seint og síðar meir á þessu ári.

Ég er með einfalda kvörtun og beiðni til þeirra sem hafa eitthvað um þetta mál að segja, og þá á ég aðallega við þingmenn úr meiri hlutanum og náttúrlega ríkisstjórnina; þ.e. að sinna þessu hlutverki sínu og taka það alvarlega. Það þarf að láta fjárveitingavaldið vita hvernig farið er með fjárheimildir sem þingið á að samþykkja, því að í rauninni hefur verið gerð undantekning á stjórnarskrárákvæði um að ekkert gjald megi innheimta eða greiða nema fyrir því sé fjárheimild í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það er einhvers konar hefð fyrir því að hægt sé að samþykkja fjárheimildir og fjárútlát eftir á. Ég er á þeirri skoðun að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því nema kannski í þeim tilvikum þar sem um lögbundinn kostnað er að ræða, t.d. varðandi almannatryggingar og þessar reiknuðu stærðir sem við getum hvort eð er ekki haft áhrif á. Við erum búin að setja lögin, þau munu kosta það sem þau kosta þó að við fáum reglulega upplýsingar um hvort eitthvað breytist þar eða ekki. Það eru fjárheimildir sem hægt er að klára í lok árs hvort eð er nema við grípum inn í með lagabreytingum þegar við fáum upplýsingar um að eitthvað gallað sé að gerast, eins og lög sem kostuðu okkur 5 milljarða fyrir tveimur árum eða svo, af því að reynt var að setja afturvirkar skerðingar á fólk og mistök gerð í lagasetningu og þar fram eftir götunum. Mjög áhugavert mál.

En í málum sem framkvæmdarvaldið kemur með til þingsins án þess að í rauninni sé takmörkun á því hvaða fjárheimildir eru ætlaðar til þeirra mála, er ekki boðlegt að geyma matið þangað til eftir á. Það verður að vera mat á áhrifum, það þarf ekki að vera hárnákvæmt en það verður að vera fyrir hendi. Þegar það er ekki, þegar ekki er einu sinni fjármálaáætlun eða fjármálastefna verður upplýsingagjöf stjórnvalda til þingsins að vera eins gagnsæ og hægt er, tíð og mikil frekar en engin og sein.