150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að við erum ekki að leggja fram opinn tékka. Við setjum fram framkvæmdaáætlun og ríkissjóður setur ekki meira í neitt verkefni en það sem ríkið samþykkir. Það liggur þá fyrir hverjir eru fyrstu áfangarnir sem ríkissjóður ætlar að setja fjármagn í.

Þá vil ég benda á að þetta er innviðaverkefni í samgöngum. Ekki er verið að setja fjármagn í að kaupa strætisvagna eða byggja upp eitthvert leiðakerfi enda hefur verið lögð áhersla á að hér er verið að fjalla um uppbyggingu innviða en ekki reksturinn. Þeir innviðir nýtast í miklu fleira en bara borgarlínu. Verið er að samþykkja að byggja upp forgangsakreinar sem gagnast núverandi almenningssamgöngukerfi og væntanlegu borgarlínusamgöngukerfi, og svo fyrir hjólandi og gangandi og hina almennu umferð. Þannig get ég ekki séð að við séum að leggja fram opinn tékka.